Falið að komast á braut um jörðu

Dragon-geimhylki badnaríska fyrirtækisins SpaceX tengist Alþjóðlegu geimstöðinni. Fyrirtækið mun sjá …
Dragon-geimhylki badnaríska fyrirtækisins SpaceX tengist Alþjóðlegu geimstöðinni. Fyrirtækið mun sjá um geimferðir NASA. AFP

Flugvélaframleiðandanum Boeing og geimferðafyrirtækinu SpaceX hefur verið falið að ferja bandaríska geimfara út í geiminn í framtíðinni. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA tilkynnti þetta í gær. Alls munu fyrirtækin fá um 6,2 milljarða dollara til að ljúka þróun á fararskjótum sínum.

Geimskutluáætlun Bandaríkjanna lauk árið 2011 og síðan hefur NASA þurft að reiða sig á Soyuz-eldflaugar Rússa til að koma geimförum sínum til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Það fyrirkomulag hugnast bandarískum stjórnvöldum lítt, sérstaklega í ljósi deilna við rússnesk stjórnvöld vegna framferðis þeirra gagnvart Úkraínu. Þá hafa Rússar tekið upp á því að rukka um 8,3 milljarða íslenskra króna fyrir hvern bandarískan geimfara.

Tilbúin síðla árs 2017

NASA var falið árið 2010 að finna einkafyrirtæki sem gerðu Bandaríkjamönnum kleift að komast sjálfir á braut um jörðu. Stofnunin hefur starfað með Boeing og SpaceX auk þriðja fyrirtækisins, SNC. Vegna fjárhagslegra takmarkana þurfti NASA að velja tvö af þeim til að halda áfram lokaþróun mannaðra geimskipa. Boeing og SpaceX eiga að vera tilbúin til að taka við sem flutningsfyrirtæki fyrir bandaríska geimfara síðla árs 2017.

Mun meira til Boeing

Lausn Boeing nefnist CST-100 og er hönnuð til að vera skotið á loft á baki Atlas V-eldflaugar frá Canaveral-höfða í Flórída, þaðan sem geimskutlur NASA létu úr höfn á sínum tíma. Hylkið sem hýsir geimfarana kemst svo aftur til jarðar með hitaskildi og fallhlífum, líkt og í Appolo-leiðöngrunum.

SpaceX heldur nú þegar úti ómönnuðum geimhylkjum, svonefndum Dragon-hylkjum, sem það skýtur á loft með eldflaugum. Þau hafa verið notuð til að flytja nauðsynjar til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Fyrirtækið vinnur að því að þróa hylkin áfram til að hægt sé að ferja fólk með þeim.

Boeing fær um einum og hálfum milljarði dollara meira en SpaceX til þróunarinnar. Forsvarsmenn SpaceX eru þó kokhraustir og telja sig geta framleitt ódýrari kosti en Boeing. Það setji fyrirtækið í kjörstöðu til að tryggja sér viðskipti við einkafyrirtæki sem hyggja á geimskot í framtíðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert