Ferja SpaceX á leið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar

Ferja geimferðafyrirtækisins SpaceX er á leið með vistir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. SpaceX heldur úti ómönnuðum geimhylkjum, svonefndum Dragon-hylkjum, sem það skýtur á loft með eldflaugum. Þau hafa verið notuð til að flytja nauðsynjar til geimstöðvarinnar.

SpaceX vinnur að því að þróa hylkin áfram til að hægt sé að ferja fólk með þeim en flugvélaframleiðandanum Boeing og SpaceX hefur verið falið að ferja bandaríska geimfara út í geiminn í framtíðinni. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA tilkynnti þetta í síðustu viku. Alls munu fyrirtækin fá um 6,2 milljarða dollara til að ljúka þróun á fararskjótum sínum.

Geimskutluáætlun Bandaríkjanna lauk árið 2011 og síðan hefur NASA þurft að reiða sig á Soyuz-eldflaugar Rússa til að koma geimförum sínum til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Það fyrirkomulag hugnast bandarískum stjórnvöldum lítt, sérstaklega í ljósi deilna við rússnesk stjórnvöld vegna framferðis þeirra gagnvart Úkraínu. Þá hafa Rússar tekið upp á því að rukka um 8,3 milljarða íslenskra króna fyrir hvern bandarískan geimfara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert