Apple: Níu kvartanir hafa borist

Ýmsir hafa haldið því á lofti að nýjustu snjallsímar bandaríska tæknifyrirtækisins Apple bogni undir álagi og hefur verið talað #bendgate á samfélagsmiðlun í tengslum við málið. Apple hefur nú svarað þessum fullyrðingum og segir að það heyri til algjörra undantekninga að símtækin bogni miðað við venjulega notkun.

Fjölmiðlar víða um heim hafa sagt frá því að eigendur iPhone 6 hafi kvartað undan því að snjallsíminn aflagist sé honum stungið í buxnavasa án hlífar. 

Helstu keppninautar Apple á snjallsímamarkaði hafa lagt sitt af mörkum til að vekja athygli á þessu. 

Talsmenn Apple segja að samtals hafi níu viðskiptavinir haft samband við fyrirtækið til að upplýsa það að stærri útgáfa iPhone 6, sem kallast iPhone 6 Plus, hafi bognað. Apple seldi 10 milljónir eintaka fyrstu tvo dagana. Nú eru liðnir sex dagar svo gera má ráð fyrir að milljónir eintaka hafi selst í viðbót.

Fram kemur í yfirlýsingu sem Apple hefur sent frá sér, að skel símtækjanna séu smíðuð úr sérstöku áli sem sé svo hitað til að styrkja skelina enn frekar. Einnig sé að finna ryðfrítt stál og hlutar út títaníum á álagspunktum. 

Apple segir að um sé að ræða efni sem eru sértaklega valin út frá styrk og endingu. Þá er tekið fram að fyrirtækið framkvæmd próf til að tryggja gæði vörunnar. 

„Miðað við venjulega notkun þá heyrir það til undantekninga að iPhone bogni og eftir sex fyrstu dagana sem síminn hefur verið í sölu þá hafa samtals níu viðskiptavinir haft samband við Apple vegna iPhone 6 Plus síma sem hafa bognað. Það sama gildir um allar Apple-vörur, ef þú ert með eitthvað sem þú vilt spyrja um hafðu endilega samband við Apple.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert