Segir símann of líkan forvera hans

iPhone 6
iPhone 6 AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur enn einu sinni komist í fjölmiðla vegna ummæla hans um tækni en í þetta skiptið var það vegna ummæla hans um nýjustu útgáfu snjallsíma fyrirtækisins Apple.

Erdogan sagðist hafa séð röðina úr Apple búð í New York í síðustu viku þegar hann var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

„Þeir koma með nýja útgáfu á hverju ári,“ sagði Erdogan í ræðu sinni á þarlendri sjónvarpsstöð.

„En staðreyndin er að hann er í raun ekkert öðru vísi en síðasta útgáfa,“ sagði hann og bætti við að það væri ekki síminn sem slíkur sem fólk væri að kaupa heldur væri það vörumerkið.

Í gegnum tíðina hefur Erdogan verið mjög mótfallinn ýmsum tækninýjungum og þá sérstaklega þegar kemur að samfélagsmiðlum þrátt fyrir að margir helstu ráðherrar Tyrklands séu virkir notendur á Twitter.

Síðurnar Twitter og YouTube voru fyrr á þessu ári bannaðar í landinu eftir að báðar síðurnar voru notaðar af andstæðingum forsetans þar sem hann var ásakaður um spillingu. Banninu var aflétt eftir að dómstólar dæmdu að bannið samræmdist ekki lögum um málfrelsi.

Erdogan líkti samfélagsmiðlum saman við hnífi í höndum morðingja og sagði að honum líkaði ekki „tweet and schmeet.“

Tíu milljónir eintaka seldust af nýjustu útgáfu snjallsíma Apple, iPhone 6,  fyrstu þrjá dagana eftir að hann fór í sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert