Setja Philae stóra daginn

Rosetta á braut um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko.
Rosetta á braut um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko. ESA

Lendingarfarið Philae mun yfirgefa faðm könnunarfarsins Rosettu og halda niður til yfirborðs halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko 12. nóvember. Tilgangurinn er að rannsaka nánar þetta umframefni frá myndun sólkerfisins.

Evrópska geimstofnunin ESA tilkynnti dagsetninguna í gær en fyrir tíu dögum var tilkynnt um hvar á halastjörnunni menn myndu freista þess að lenda Philae. Halastjarnan er nú í um 450 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni og ferðast á tæplega 17 kílómetra hraða á sekúndu. Rosetta hefur verið á braut um halastjörnuna frá því í byrjun ágúst.

Fari allt að áætlun mun Philae lenda um klukkan 15:35 að íslenskum tíma miðvikudaginn 12. nóvember. Vegna þess að merki frá farinu tekur rúmar 28 mínútur að ferðast til jarðarinnar má búast við því að staðfesting á að lendingin hafi tekist berist um klukkan 16.

Philae mun nota nokkurs konar skutul til þess að festa sig við yfirborð halastjörnunnar áður en hún boltar sig enn fastar niður. Á meðal þeirra rannsókna sem henni er ætlað að gera er að bora um það bil hálfs metra djúpa holu til þess að safna sýnum til efnagreiningar.

Halastjörnur eru að mestu leyti úr ís og ryki og hringsóla þær um sólina. Þær eru leifar frá þeim tíma þegar sólkerfið okkar mótaðist fyrir um 4,6 milljörðum ára og geta því varpað frekara ljósi á aðstæður þegar það myndaðist.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem ESA hefur látið gera til að fræða börn, og aðra sem eru ungir í anda, um Rosetta/Philae-leiðangurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert