Eve Online kemur út á frönsku

Frá því EVE Online kom fyrst út árið 2003 hefur …
Frá því EVE Online kom fyrst út árið 2003 hefur leikurinn tekið miklum breytingum. CCP hefur árlega gefið út nýjar útgáfur af leiknum, eða svokallaðar viðbætur (e. expansion), sem innihalda ýmsar nýjungar fyrir spilara leiksins og stækkar leikjaheim hans mynd/CCP

EVE Online, fjölspilunar-tölvuleikur CCP, kemur út á frönsku í dag. Leikurinn, sem fagnaði 11 ára útgáfuafmæli sínu á árinu, kom upphaflega út á ensku en síðan hafa fleiri tungumál bæst við.

EVE Online hefur undanfarin ár verið fáanlegur á rússnesku, þýsku og kínversku og frá og með árinu 2011 á japönsku. Í dag bætist sjötta tungumálið við, að því er segir í tilkynningu frá CCP.

Fram kemur, að auk þess að gefa leikinn út í heild sinni á frönsku muni CCP frá og með deginum í dag sinna frönskumælandi markaðssvæðum heimsins með margskonar upplýsingagjöf og þjónustu við viðskiptavini sína á frönsku.

Til að kynna franska útgáfu EVE Online stendur CCP fyrir samkomu fyrir blaðamenn og spilara leiksins í París á fimmtudaginn. Í tengslum við hana verður sett upp sýning á myndefni og listaverkum úr heimi leiksins og video-verkið Day in the Universe, sem sýnt var á  Museum of Modern Art (MoMA) í New York í fyrra, verður þar í fyrsta sinn sýnt fyrir utan New York. Verkið sýnir sýnir leikjaheim EVE Online og var gert með þátttöku þúsunda EVE spilara um heim allan.

„Við erum mjög ánægð að færa frönskumælandi spilurum tölvuleikja þann einstaka leikjaheim sem EVE Online hefur upp á að bjóða. Í dag erum við með öflugt samfélag EVE Online spilara í Frakklandi og það verður athyglisvert að sjá hvernig það bregst við með þessari viðbót við leikinn og auknum fjölda frönskumælandi spilara,“ segir Andie Nordgren, framleiðslustjóri EVE Online, í tilkynningu.

„Sem Frakki er ég auðvitað himinlifandi með að frönskumælandi hluti heimsbyggðarinnar geti spilað EVE Online á þeirra móðurmáli. Ég vonast til að við sjáum fleiri frönskumælandi spilara í leikinn á næstu mánuðum og árum,“ segir Guilhem Marin leikjahönnuður í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert