Greiða fyrir frystingu eggja

AFP

Lengi hefur verið rætt um hversu fáar konur starfi hjá tæknifyrirtækjum í Kísildal en nú ætlar Apple að fylgja í fótspor Facebook og bjóða kvenkynsstarfsmönnum upp á að greiða kostnað við að frysta egg sín. 

Facebook býður konum hjá fyrirtækinu upp á að greiða allt að 20 þúsund Bandaríkjadali, rúmar 2,4 milljónir króna, í kostnað sem fylgir því að láta taka egg og frysta til síðari tíma nota. Eins býður fyrirtækið upp á fjárhagsstuðning við ættleiðingar og staðgöngumæðrun. Sem og að greiða ýmsan kostnað sem fylgir barneignum og á það við bæði um karla og konur sem starfa hjá fyrirtækinu, að því er fram kemur í fjölmörgum bandarískum og breskum fjölmiðlum í gær.

Apple segir að til þess að reyna að laða að fleiri konur verði þeim boðið upp á fjárhagsstuðning vilji þær frysta og geyma egg, lengra fæðingarorlof, aðstoð við ættleiðingar og tæknifrjóvganir. 

Í tilkynningu frá Apple kemur fram að fyrirtækið vilji gera konum hjá Apple kleift að vinna við það sem þær vilja á sama tíma og þær eignist fjölskyldu og geti annast hana. 

Kostnaður við að frysta egg er um 10 þúsund Bandaríkjadalir og geymsla á eggjum kostar um 500 dali á ári. Yfirleitt þarf að fara í tvær meðferðir svo hægt sé að ná um 20 eggjum sem þykir nauðsynlegur fjöldi þegar kemur að því að frysta egg.

Kellye Sheehan, prófessor með sérhæfingu í stöðu kvenna á tæknimarkaði, segir í viðtali við USAToday, að hugmyndin sé ágæt en ekki sé öruggt að allar konur muni stökkva á tilboðið. 

Þetta eru fín fríðindi en að sjálfsögðu er það afar persónuleg ákvörðun fyrir hverja konu á vinnumarkaði. Hvenær rétt sé að fara í háskólanám og útskrifast úr námi, eignast börn, hefja starfsferil, auka starfsframa - allt eru þetta atriði sem hafa áhrif á líf þitt, segir Sheehan. 

Hún spyr hvort vinnuveitandinn sé að reyna að segja okkur eitthvað með þessu. Að það sé viðurkennd staðreynd að móðir á vinnumarkaði þarf að vera með marga bolta á lofti. En það gengur ekki upp að vinnuveitandinn sé að taka slíkar ákvarðanir fyrir þig. Það er þitt að ákveða.

Þegar byrjað var að frysta egg kvenna var það gert til þess að aðstoða konur sem fengu krabbamein. Lyfjameðferðin eyðileggur egg kvenna þannig að með því að frysta egg kvenna með krabbamein getur veitt þeim möguleika á að eignast börn síðar. 

Nú er í auknu mæli farið að frysta egg kvenna á þrítugsaldri svo þær eigi meiri möguleika á að verða þungaðar á fertugs- og fimmtugsaldri. Mestar líkur eru á því að verða þungaður á þrítugsaldri þar sem smám saman dregur úr eggjaframleiðslunni. 

Bloomberg

Guardian

CBS News

USAToday

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert