58 ára eru hamingjusamastir allra

Fólk er hamingjusamast þegar það er 58 ára.
Fólk er hamingjusamast þegar það er 58 ára. AFP

Óttastu að besta tímabil lífs þíns sé liðið? Engar áhyggjur. Fólk verður hamingjusamara eftir því sem aldurinn færist yfir. 58 ára fólk er hamingjusamast allra.

Þetta er niðurstaða könnunar sem um 2.000 Bretar tóku þátt í en það var tæknirisinn Samsung sem stóð að könnuninni. 

Oft er talað um að unga fólkið sé hamingjusamast og áhyggjulausast og gamlir karlar séu bitrir og fúlir. En það er bara alls kostar ekki rétt, sé eitthvað að marka könnunina. 

Þegar fólk er 35 ára er það einna óhamingjusamast. Þá er það svo stressað, þarf að samþætta vinnuna og fjölskyldulífið og er að reyna að ná frama í vinnunni. 

Það er nefnilega ekki á tvítugs-, þrítugs- fertugs- eða fimmtugsaldri sem hamingjan er mest heldur á sextugsaldri. 58 ára fólk er samkvæmt könnuninni sáttast og sælast með líf sitt. Þá hefur það náð jafnvægi í vinnu og einkalífi, setur einkalífið jafnvel framar vinnunni. Líklega er þó stressið við að ala upp ung börn það sem einna mestu máli skiptir. 

„Það er ekkert skrítið að við séum svona stressuð á fertugsaldri því við reynum, stundum af örvæntingu, að ná tökum á streituvaldandi vinnu og krefjandi fjölskyldulífi á sama tíma og við erum að reyna að eiga í hamingjusömu sambandi við maka okkar,“ segir Cary Cooper, prófessor við háskólann í Lancaster. 

Könnunin leiddi í ljós að peningar væru sá þáttur sem hefði mest áhrif á streitu. 

Aðrar rannsóknir hafa sýnt svipaðar niðurstöður. Í einni kom fram að við værum hvað hamingjusömust þegar við erum 23 ára og svo aftur 69 ára. Enn ein komst að því að 33 væri töfratalan. Þegar við værum svo gömul væri hátindinum náð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert