Segir Twitter af hinu illa

AFP

Sheikh Abdul Aziz bin Abdullah-al-Sheikh, múfti og æðsti embættismaður trúmála í Sádi-Arabíu, segir að samfélagsmiðillinn Twitter sé ekkert annað en uppspretta lyga og af hinu illa. Twitter er afar vinsæll vefur í heimalandi klerksins sem áður hefur gagnrýnt hluti sem flestum þykja eðlilegir. 

Árið 2001 fordæmdi hann Pokémon-leikinn á þeirri forsendu að hann ýtti undir fjárhættuspil, trú á þróunarkenningu Darwins og væri þáttur í samsæri síonista gegn múslimum. 

Hann segir að ef Twitter-vefurinn væri nýttur á réttan hátt þá gæti hann verið til góðs en því miður er því ekki þannig farið sagði múftinn í sjónvarpsþætti sínum Fatwa í gærkvöldi.

Hann segir að Twitter sé af hinu illa og stuðli að eyðingu. Fólk fari inn á Twitter og telur að vefurinn sé áreiðanleg heimild en Twitter sé bara uppspretta lyga og fölsunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert