Ello „allt sem Facebook er ekki“

AFP

Nýi samfélagsmiðillinn Ello, hefur fengið 5,5 milljónir dollara eða um 660 milljónir króna í styrki frá fjárfestum, og geta stjórnendur síðunnar því efnt loforð sitt um að hafa hana lausa við allar auglýsingar.

Ello er samfélagsmiðill sem svipar til Facebook, en stjórnendur síðunnar segjast þó vilja vera „allt það sem Facebook er ekki.“ Á Ello verða því ekki seldar auglýsingar, auk þess sem persónuupplýsingar verða ekki aðgengilegar óviðkomandi aðilum.

Fjármagnið verður meðal annars notað til að auka notendur síðunnar svo hún verði opnari, en eins og staðan er núna þarf fólk að fá boð um að tengja sig frá núverandi notendum til að geta búið til aðgang. Síðan var opnuð á seinasta ári sem lokaður samfélagsmiðill, en í síðasta mánuði voru dyrnar opnaðar fyrir almennum notendum. 

„Þú ert ekki framleiðsluvara“

Stefnuyfirlýsing síðunnar er á þann veg: „Við trúum að samfélagsmiðill geti verið tól fyrir umbætur. Ekki tól til að blekkja, þvinga og svíkja - heldur staður til að tengjast, skapa og fagna lífinu. Þú ert ekki framleiðsluvara.“

Með þessu gagnrýna stjórnendur síðunnar starfshætti Facebook þar sem persónuupplýsingar fólks eru seldar til þriðja aðila, og segja það „bæði óhugnanlegt og siðlaust.“

Frítt er fyrir notendur að tengjast á Ello, og enn er óljóst hvort stjórnendur síðunnar geti þróað arðbæra viðskiptaáætlun án allra auglýsinga.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert