Óprúttnir komast inn í tölvupóstsamskipti

Tölvuþrjótar við iðju sína.
Tölvuþrjótar við iðju sína. AFP

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa að undanförnu borist kærur og ábendingar vegna fjársvika þar sem óprúttnir tölvuþrjótar virðast hafa komist inn í tölvupóstsamskipti íslenskra fyrirtækja sem eiga í viðskiptum milli landa.

Með þessum hætti hefur þeim tekist í nokkrum tilfellum að breyta greiðslufyrirmælum vegna uppgjöra á viðskiptareikningum milli fyrirtækja og beina þannig greiðslum á reikninga óviðkomandi.

Lögregla brýnir fyrir þeim sem standa í viðskiptum milli landa að hafa varann á sér þegar skyndilegar breytingar verða á greiðslufyrirmælum viðskiptavina og reyna að afla staðfestingar á slíkum breytingum með öðrum hætti en tölvupósti.

Í þessu samhengi má minnast á atvik sem kom upp árið 2011 en þá munaði litlu að Þjóðleikhúsið tapaði fimm milljónum króna sem greiða átti fyrir risaflatskjá frá kínverskum framleiðanda, í hendurnar á glæpamönnum.

Féð var komið inn á bankareikning glæpamannanna en með hjálp sendiherra Kína hér á landi tókst að endurheimta peningana áður en þeir tóku þá út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert