6 þúsund Íslendingar með psoriasis

Psoriasis
Psoriasis Af vef Wikipedia

Psoriasis hrjáir um 2-3% jarðarbúa sem þýðir að sex til tíu þúsund manns á Íslandi þjást af sjúkdómnum.

Psoriasis er krónískur bólgusjúkdómur sem getur haft alvarleg áhrif á lífsgæði og líðan þeirra sem lifa með honum.  

Samtök psoriasis og exemsjúklinga á Íslandi, SPOEX, taka árlega þátt í alþjóðlegu átaki þann 29. október sem er alþjóðadagur psoriasis.  Sjúklingasamtök um allan heim nýta daginn til að vekja athygli á sjúkdómnum og berjast fyrir betri heimi fyrir fólk með psoriasis, samkvæmt fréttatilkynningu.  

„Samkvæmt nýjustu rannsóknum Alþjóðahreyfingar psoriasissamtaka IFPA segja 77% þeirra sem þjást af psoriasis að sjúkdómurinn sé alvarlegt vandamál, og 60% telja að hann hafi áhrif á daglegt líf. Um 40% taka ekki þátt í neinum íþróttum vegna sjúkdómsins.  Yfir 40% þjást einnig af psoriasis gigt. Þá eru psoriasis sjúklingar líklegri til að þjást af hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, meltingarfærasjúkdómum og eiga við offituvandamál að stríða.

En psoriasis hefur ekki einungis líkamleg áhrif á heilsu fólks því sálræn áhrif eru einnig sláandi. Tæplega 80% telja sig hafa mætt fordómum vegna psoriasis, um 65% telja sig hafa orðið fyrir mismunun í skólum eða á vinnustað vegna sjúkdómsins og 21% telur að psoriasis sé ástæða fyrir lægri heimilistekjum.  Þá eiga um 30% psoriasis sjúklinga við þunglyndi að stríða og um 10% þjást af sjálfvígshugsunum,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert