Súkkulaði bætir minni fólks

Kakóbaun er full af efni sem getur bætt minni fólks.
Kakóbaun er full af efni sem getur bætt minni fólks. AFP

Efni í súkkulaði getur orðið til þess að snúa við aldurstengdu minnisleysi hjá fólki á aldrinum 50-69 ára. Skýringin er sú að efnið veldur auknu blóðflæði í ákveðnum hluta heilans. Þetta er niðurstaða vísindamanna við Columbia-háskóla. 

Í frétt Guardian um málið segir að rannsókn vísindamannanna sýni í fyrsta sinn fram á að aldurstengt minnisleysi megi rekja til breytinga á ákveðnum svæðum í heilanum. Þetta er einnig í fyrsta sinn sem rannsókn sýnir að hægt sé að snúa við minnisskerðingu með breyttu mataræði.

Rannsóknin var framkvæmd með því að útbúa sérstakan kakódrykk fyrir 37 þátttakendur. Drukku þeir kakóið daglega í þrjá mánuði. Í drykkjum sumra þátttakenda var stór skammtur af efni sem kallast flavanol og finnst í náttúrulegu kakói sem og í ýmsum ávöxtum og grænmeti. Í drykkjum hinna þátttakenda var efnið varla til staðar í drykknum.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að þeir sem fengu stóran skammt af flavanoli bættu minni sitt umtalsvert á rannsóknartímabilinu. Þá sýndu myndir af heila þeirra að magn blóðs í ákveðnum hluta heilans hafði einnig stóraukist.

Rannsóknin var birt í Nature Neuroscience.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert