Google vill greina krabbamein

AFP

Tæknirisinn Google hefur nú sett sér það mark að hanna tækni sem sagt getur til um krabbamein, yfirvofandi hjartaáfall og heilablóðfall auk fleiri sjúkdóma. Á tækni þessi einnig að geta greint kvilla fyrr en þau tæki sem til eru í dag.   

Á fréttavef BBC kemur fram að fyrirtækið sé nú í óða önn að hanna þá tækni sem nauðsynleg er til að greina sjúkdóma í fólki. Mun tæknin m.a. samanstanda af pillu, sem viðkomandi myndi láta ofan í sig, en í henni má finna nanóbúnað sem berst inn í blóðrásina. Á búnaður þessi að geta greint óeðlilegar frumubreytingar hjá fólki. Verði hann var við slíkt fær skynjari, sem viðkomandi hefur á úlnliði sínum, boð um það.

Er hugmyndin sú að greina smávægilegar breytingar í líkamsstarfsemi fólks, s.s. óeðlilegar frumubreytingar, og á þetta að verka sem snemmbúin viðvörun. Hönnunarferlið er hins vegar enn sagt vera á frumstigi. 

Líkt og gefur að skilja er afar brýnt að sjúkdómsgreina sjúklinga snemma svo auka megi líkur á bata. Gangi þetta allt saman eftir þá ætti að vera hægt að greina sjúkdóma í fólki áður en nokkur einkenni koma fram.

Verkefni þetta er á vegum X-lab, tilraunastofu Google, og vill fyrirtækið með þessu leggja sitt af mörkum til þróunar í læknavísindum. Tilraunastofan er einna helst þekktust fyrir þá tækni sem fundin var upp í tengslum við leitarvél Google á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert