Google sektað fyrir mynd af brjóstaskoru

AFP

Google þarf að greiða 2.250 kanadíska dollara, um 250 þúsund íslenskar krónur, í sekt fyrir að hafa tekið mynd af brjóstaskoru konu fyrir Google Street View.

Kanadískur dómstóll komst að því að þrátt fyrir að konan hafi verið á almannafæri, sitjandi á tröppum fyrir framan hús sitt, hafi friðhelgi einkalífs hennar verið rofin og „hógværð hennar og virðing“ lítilsvirt.

Dómarinn segir að konan hafi fengið illkvittnar athugasemdir og upplifað niðurlægingu í vinnu sinni vegna myndarinnar. Var það niðurstaða hans að Google bæri að greiða konunni skaðabætur.

Í frétt Guardian um málið kemur fram að Google hafi ekki svarað fyrirspurnum blaðsins um málið.

Konan fór upphaflega fram á mun hærri skaðabætur. Í rökstuðningi kæru hennar kom m.a. fram að hún hefði rétt á einkalífi og þó að andlit hennar hefði verið máð út, líkt og gerist sjálfkrafa á öllum myndum sem birtast á Google Street View , hafi húsið hennar þekkts og númeraplatan á bílnum hennar verið sýnileg.

Myndirnar voru teknar árið 2009. Þær voru birtar í Google Street View í október sama ár. Konan fór strax fram á að myndirnar yrðu teknar út en Google svaraði aldrei fyrirspurnum hennar.

Frétt Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert