Í Frakklandi horfa menn til himnanna

Algengasta skýring fljúgandi furðuhluta eru kínverskir ljósalampar sem sendir eru …
Algengasta skýring fljúgandi furðuhluta eru kínverskir ljósalampar sem sendir eru á loft í veislum. AFP

Frakkland er eina Evrópulandið sem enn rekur sérstaka deild tileinkaða rannsóknum á fljúgandi furðuhlutum. Starfsmenn deildarinnar, sem tilheyrir frönsku geimferðastofnuninni, eru alls fjórir talsins en þeir hafa á sínum snærum nokkra sjálfboðaliða sem þeir senda út af örkinni til að kanna fregnir af óútskýrðu sjónarspili á himnum.

Teymið kallast Geipan, sem er skammstöfun fyrir franska heitið á „Rannsóknarhópur og upplýsingar um óútskýrð geimfyrirbæri“. Yfirmaður þess er Xavier Passot en í samtali við veftímarit BBC segir hann markmið sitt að viðhafa eins mikla gegnsæi og hægt er varðandi óútskýrðar furðusjónir og að fylgja eftir hverri einustu ábendingu sem berst teyminu.

Ábendingarnar telja um tvær á dag en niðurstöður athugana Passot og félaga eru birtar á heimasíðu deildarinnar, sem fær um 30 þúsund heimsóknir á mánuði. Til að koma skilaboðum um mögulega fljúgandi furðuhluti á framfæri við Geipan þarf að fylla út 11 blaðsíðna eyðublað en það notar teymið m.a. til að sortera út hrekkjalóma.

Rannsóknir teymisins fara fram í stigum, fyrst er athugað hvort „viðburðurinn“ átti sér stað á þekktri flugleið, og því næst haft samband við staðaryfirvöld, ef forvitnileg mynd fylgir eða margir urðu vitni að fyrirbærinu.

Passot segir að margir sem hafa samband séu reykingamenn, sem standi fyrir utan bari eða heimili sín og horfi á næturhimininn.

Hann segist aldrei hafa hylmt yfir UFO-viðburði (unidentified flying object) og í flestum tilfellum finni teymið útskýringu á dularfullum ljósagangi og öðrum fyrirbærum sem fólk tilkynnir um.

Algengasti sökudólgurinn eru kínverskir lampar sem fólk sendir á loft í veislum og partíum en blöðrur og flugdrekar eiga einnig sinn þátt.

Frá 1970 hafa aðeins um 400 viðburðir verið óútskýrðir. Einn þeirra varðaði fljúgandi disk sem lenti mögulega nærri Aix-en-Provance árið 1981 og er tekinn alvarlega þar sem margir urðu vitni að „lendingunni“ og greinileg för sáust þar sem diskurinn átti að hafa komið niður.

Nánar má lesa um Geipan á heimasíðu BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert