Kynin bregðast ekki eins við geimnum

Geimfarinn Karen Nyberg kannar í sér augun um borð í …
Geimfarinn Karen Nyberg kannar í sér augun um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni. Sjóntruflanir eru helsti heilbrigðisáhættuþáttur geimfara og þjást karlmenn frekar af þeim en konur. NASA

Kyn og kyngervi er lykilþáttur í þeim líkamlegu áhrifum sem geimferðir hafa á geimfara. Þannig þjást karlkyns geimfarar frekar af sjón- og heyrnatruflunum síðar meir en kvenkyns geimfarar. Konur eru hins vegar viðkvæmari fyrir krabbameinum af völdum geimgeisla.

Bandaríska geimstofnunin NASA og geimlíf- og læknisfræðirannsóknarstofnunin NSBRI hafa tekið saman fyrstu ítarlegu rannsóknina hingað til á þeim mismunandi áhrifum sem geimferðir hafa á fólk eftir kyni þess. Gögnin sem hún byggir á eru óhjákvæmilega nákvæmari fyrir karlmenn en konur þar sem að mun fleiri karlar hafa farið út í geiminn. Tölfræðin var 477 karlar á móti 57 konum í júní í fyrra. Af hópi átta mögulegra geimfara sem NASA valdi í fyrra voru þó jafnmargar konur og karlar. Þetta þýðir þó að erfitt er að draga afgerandi ályktanir um hversu mikið kyn og kyngervi hefur að segja um áhrif geimferða á geimfara. 

Á meðal þess sem kemur fram í rannsókninni er að konur eru líklegri til að eiga erfitt með að standa uppréttar án þess að það líði yfir þær eftir lendingu en karlar. Mögulegt er talið að þyngdarleysi geimsins hafi meiri áhrif á æðakerfið í fótum kvennanna en karlanna. Þær tapa einnig meiri blóðvökva en karlarnir. Streitueinkenni kvenna eru frekar aukinn hjartsláttur en hjá körlum koma þau fram sem mótstaða í blóðflæði.

Geislun er meiriháttar áhættuþáttur í geimferðum og benda gögn til þess að konum sé hættara við krabbameinum af völdum geimgeisla en körlum. Því eru viðmiðunarmörk um geislun lægri fyrir þær en fyrir karla. Rannsóknin benti einnig til þess að konum væri örlítið hættara við því að líða illa þegar þær kæmu fyrst í lágt þyngdarafl og þær væru líklegri til að fá þvagfærasýkingar en körlum í geimnum.

Enginn munur á hegðun eða andlegu ástandi

Hvað varðar karlana bendir rannsóknin til þess að þeir séu líklegri til að þjást af einhverjum sjóntruflunum vegna geimferða. Þekkt er að þyngdarleysið veldur því að vökvi safnast saman í efri hluta líkama geimfaranna og það veldur þrýstingi inni í höfuðkúpunni. Það leiðir til aukins þrýstings aftan á augun og virðist sjóntaugin kremjast að einhverju leyti. Um 82% karlkyns geimfara hafa orðið fyrir þessum áhrifum á móti 62% kvenna. Öll alvarlegri tilfelli hafa greinst í karlmönnum.

Heyrnarnæmi karlkyns geimfara minnkar mun hraðar en kvenkyns en engin gögn benda þó til þess að munur á heyrn eftir kynjum sé af völdum þyngdarleysisins. 

Þá eru engar vísbendingar um að geimferðir hafi mismunandi áhrif á hegðun geimfara eða andlegt ástand eftir kyni þeirra. Allir geimfarar þurfa að ganga í gegnum strangar læknisskoðanir og þjálfun og þannig er dregið verulega úr hættunni á að þeir bregðist illa við aðstæðum þegar út í geiminn er komið.

Frétt um áhrif geimferða á kynin á vef NASA

Áhrifin sem geimferðir geta haft á karlkyns og kvenkyns geimfara.
Áhrifin sem geimferðir geta haft á karlkyns og kvenkyns geimfara. NASA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert