Áttu þetta svarthol í miðstærð?

Á myndinni sjást tvö svarthol í þyrilvetrarbrautinni NGC 1313, sem …
Á myndinni sjást tvö svarthol í þyrilvetrarbrautinni NGC 1313, sem einnig hefur verið nefnd Óreiðuvetrarbrautin. Bæði svartholin, sem merkt eru með fjólubláum lit, tilheyra flokki ofurbjartra röntgenuppspretta. Fjólubláu hlutarnir koma frá NuSTAR-sjónaukanum og voru þeir lagðir yfir mynd sem tekin var í sýnilegu ljósi. NASA/JPL-Caltech/IRAP

Hamagangur hefur verið í öskjunni í verslunum í Bandaríkjunum í dag á svonefndum svarta föstudegi. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA heldur einnig upp á daginn en hjá henni er það svartholsföstudagur. Liggur við að hasarinn í búðunum trompi hins vegar þann sem átti sér stað þegar svartholin mynduðust.

Í tilefni dagsins birtir NASA ýmsar upplýsingar um svarthol á Facebook-síðu sinni. Á meðal fróðleiksmolanna sem þar er að finna er hvort að til sé miðstærð af svartholum.

Eins og klæðnaðurinn sem viðskiptavinir verslananna sem bjóða upp á stórlækkað verð koma svarthol í ýmsum stærðum. Þau geta verið smágerð með massa sem er aðeins tíu sinnum meiri en sólarinnar okkar. Svo geta þau verið gríðarlega stór með massa sem er á við tíu milljarða sóla. Spurning er hins vegar hvort að svartholin séu einnig til í miðstærð. Kjarnalitrófssjónauki NASA, NuSTAR, rannsakar nú hóp svarthola sem gætu fallið í þann flokk.

Stærstu svartholin, svonefnd risasvarthol, er að finna í hjarta vetrarbrauta eins og okkar. Yfirþyrmandi þyngdarkraftur þeirra dregur efni að þeim og hitar það upp þannig að röntgengeislar myndast. Minni svarthol eru svo víðsvegar um vetrarbrautir en þau myndast þegar stjörnur sem eru stærri en sólin okkar deyja og falla saman undan eigin þyngdarkrafti.

Gæti verið að finna þar sem svarthol háma í sig stjörnu

Vísbendingar um miðlungsstór svarthol gæti verið að finna í svonefndum ofurbjörtum röntgenuppsprettum. Það eru svarthol sem eru að innbyrða venjulegar stjörnur. Átið líkir eftir því sem á sér stað við risasvartholin með röntgengeislunina en á minni skala. Slík fyrirbæri eiga sér stað víða í vetrarbrautum en ekki í hjarta þeirra.

Á meðfylgjandi mynd sjást tvö svarthol í þyrilvetrarbrautinni NGC 1313, sem einnig hefur verið nefnd Óreiðuvetrarbrautin. Bæði svartholin, sem merkt eru með fjólubláum lit, tilheyra flokki ofurbjartra röntgenuppspretta. Fjólubláu hlutarnir koma frá NuSTAR-sjónaukanum og voru þeir lagðir yfir mynd sem tekin var í sýnilegu ljósi.

Hægt er að fylgjast með svartholsföstudegi NASA á Facebook-síðu stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert