DNA lifði af ferð í gegnum lofthjúpinn

Teikning af hluta DNA keðju.
Teikning af hluta DNA keðju.

Erfðaefnið DNA getur áfram flutt upplýsingar þrátt fyrir að hafa farið í gegnum lofttæmi í geimnum og gríðarlegan hita við það að þjóta í gegnum lofthjúp jarðarinnar. Þetta er niðurstaða svissneskra vísindamanna sem mökuðu erfðaefni utan á eldflaug sem þeir sendu út úr lofthjúpi jarðar.

Á meðal kenninga um uppruna lífsins á jörðinni er að lífið sjálft eða að minnsta kosti lífræn efnasambönd hafi borist hingað með halastjörnum eða loftsteinum. Það hefur kallað á spurninguna hvort að flókin sameind eins og kjarnsýran DNA sem myndar erfðaefni lífs á jörðinni geti lifað af gríðarlegan hitann þegar fyrirbæri fellur í gegnum lofthjúpinn, geimgeisla og sólvinda í geimnum.

Nú virðist líklegra að það sé mögulegt eftir að vísindamenn við Zürich-háskóla í Sviss settu DNA utan á TEXUS-49-eldflaug sem þeir skutu á loft. Þeir komust að raun um að kjarnsýran virkaði enn þegar henni var komið fyrir í bakteríum og veffrumum.

Hitinn á loftinu fyrir framan eldflaugina náði allt að 1.000°C og inni í henni náði hann 130°C. Hluti af efninu var sviðinn í burtu en rúmur helmingur þess var eftir á botni eldflaugarinnar. Rúmur þriðjungur þess var nógu heillegur til að vera nýtilegur. Flugið varði aðeins í þrettán mínútur svo ekki gafst tími til að sjá hvernig DNA-ið ræður við geislun í geimnum.

Þessar niðurstöður eru ekki síst mikilvægar fyrir geimferðir framtíðarinnar. Ef lífrænt efni getur lifað af ferð í gegnum geiminn og lofthjúp reikistjörnu er mikilvægt fyrir menn að geta fullvissað sig um að ef þeir greina lífærnt efni eða jafnvel líf utan jarðarinnar að það sé ekki í raun upprunið á jörðinni og hafi borist með geimfarinu sjálfu. Þetta er ástæða þess að geimför sem eru send til Mars til dæmis dauðhreinsuð. 

Grein svissnesku vísindamannanna á vísindavefnum PLOS ONE

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert