Plútó á sjóndeildarhringnum

Teikning listamanns af könnunarfarinu New Horizons sem nálgast nú Plútó …
Teikning listamanns af könnunarfarinu New Horizons sem nálgast nú Plútó á ystu mörkum sólkerfis okkar. NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institute

Könnunarfarið New Horizons sem legið hefur í dvala að mestu undanfarin ár verður vakið af værum blundi nú um helgina. Það nálgast nú dvergreikistjörnuna Plútó og fylgitungl hennar. Tæpur áratugur er liðinn frá því að geimfarinu var skotið á loft frá jörðu en á þeim tíma var Plútó enn í tölu pláneta.

New Horizons á að fljúga fram hjá Plútó 14. júlí á næsta ári en það mun byrja að safna vísindagögnum og taka myndir strax í janúar. Vísindastörfum þess lýkur ekki fyrr en árið 2016. Það verður vakið af dvala á aðfaranótt sunnudags.

Sjö mælitæki eru um borð í New Horizons til að gera fjarkannanir á Plútó og tunglunum Karon, Styx, Nix, Kerberos og Hýdru en jafnframt beinar mælingar á segulsviði, ryki, jónum og ýmsum öðrum eindum sem verða á vegi farsins í nágrenni kerfisins.

Næst mun New Horizons fara í um 13.700 kílómetra fjarlægð frá dvergreikistjörnunni Plútó. Til samanburðar er fjarlægðin milli jarðarinnar og tunglsins um 384.000 kílómetrar. Á þeim tímapunkti mun það taka merki frá könnunarfarinu fjórar klukkustundir og 25 mínútur að berast til jarðarinnar. Gögn munu þó ekki berast fyrr en 15. júlí, daginn eftir nánustu kynni Plútó og New Horizons, þar sem farinu verður ekki beint strax til jarðar. Þá munu meðal annars berast svarthvítar myndir af yfirborðinu.

Geimfarinu var skotið á loft í janúar árið 2006 og setti met yfir mesta hraða sem manngert far hefur náð á leið sinni frá jörðinni, rúmlega sextán kílómetra hraða á sekúndu en það er um það bil hraðinn sem far þarf að ná til að sleppa undan þyngdarsviði jarðarinnar og sólarinnar. Áður en yfir lýkur mun New Horizons hafa ferðast um 4,7 milljarða kílómetra.

Grein á Stjörnufræðivefnum um Plútó

Grein á Stjörnufræðivefnum um New Horizons

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert