Hulduorkan að éta upp efnið

Talið er að hulduefni hafi haft mikil áhrif á myndun …
Talið er að hulduefni hafi haft mikil áhrif á myndun vetrarbrauta. Sé það að hverfa muni hægja á myndun stórra fyrirbæra í alheiminum. AFP

Vísbendingar eru um að svonefnd hulduorka sé að éta upp hulduefni með þeim afleiðingum að það hægi á uppbyggingu stórra fyrirbæra eins og vetrarbrauta og vetrarbrautaþyrpinga í alheiminum. Ef svo er gæti alheimurinn endað sem risavaxið tómt gímald í fjarlægri framtíð.

Hulduefni hefur verið lýst sem nokkurs konar byggingarblokk alheimsins. Um fimm sinnum meira er af hulduefni í alheiminum en venjulegu sjáanlegu efni. Vísindamönnum hefur enn ekki tekist að koma auga á hulduefnið en þeir vita að það er til staðar vegna þeirra þyngdaráhrif sem það hefur á sjáanleg fyrirbæri.

Rannsóknir vísindamanna frá Portsmouth á Englandi og Róm benda nú til að einhvers konar orkuflutningar eigi sér stað á milli hulduefnis og svonefndrar hulduorku. Sú tegund orku er talin vera um 70% af öllu innihaldi alheimsins. Hulduorka virkar gagnstætt aðdrægum þyngdarkrafti fyrirbæra í alheiminum sem ætti að öllu jöfnu að valda því að alheimurinn skryppi saman. Þannig telja vísindamenn að hulduorka stuðli að því að alheimurinn haldi áfram að þenjast út.

Tómur og leiðinlegur alheimur

Núverandi staðallíkan heimsfræðinnar gerir ráð fyrir því að magn hulduorku sé fasti sem nefndur hefur verið alheimsfasti. Það styður þá hugmynd af alheimurinn hafi þanist út frá Miklahvelli og að hulduorka knýi áfram útþensluna.

Fyrri rannsóknir hafa stutt hugmyndina um alheimsfasta hulduorku en vísbendingar hafa engu að síður verið um að nýju gögnin falli ekki fullkomlega að staðallíkaninu. Þær benda þvert á móti til þess að hulduorka og efni orki á einhvern hátt hvort á annað, að sögn David Wands, forstöðumanns heimsfræði- og þyngdarkraftsstofnunar Portsmouth-háskóla sem stóð að rannsókninni.

Rannsókn Wands og félaga bendir til þess að hulduorkan sé að vaxa eftir því sem hún étur upp hulduefnið. Menn hafa hins vegar enn sem komið er lítinn skilning á hulduorku og efni og segir Wands að bera þurfi frekari gögn saman við staðallíkanið. Sé það hins vegar rétt að hulduorka sé að bera hulduefni ofurliði þá er framtíð alheimsins bókstaflega svört.

„Ef hulduorka er að vaxa og hulduefni að hverfa þá munum við enda með stóran, tóman, leiðinlegan alheim með næstum því engu í sér. Hulduefni er umgjörð fyrir fyrirbæri til að vaxa í alheiminum. Vetrarbrautirnar sem við sjáum eru byggðar á slíkum vinnupöllum og það sem við sjáum í þessum niðurstöðum bendir til þess að hulduefni sé að gufa upp og hægi á vexti fyrirbæranna,“ segir Wands.

Frétt á vef Portsmouth-háskóla um rannsóknina á hulduorku og efni

Grein um hulduefni á Stjörnufræðivefnum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert