Besta loftsteinadrífa ársins

Stjörnukort af tvíburamerkinu. Með því er hægt að finna Kastor …
Stjörnukort af tvíburamerkinu. Með því er hægt að finna Kastor og Pollux, björtustu stjörnurnar í merkinu en geislapunktur drífunnar er rétt fyrir ofan Kastor. Stjörnufræðivefurinn

Búast má við því að hægt verði að sjá allt að 120 stjörnuhröp á klukkustund þegar best lætur hér á landi á laugardagskvöld þegar loftsteinadrífan Geminítar nær hámarki sínu. Ekki þarf sérstakan búnað til að fylgjast með sjónarspilinu en hins vegar gætu veðurguðirnir sett strik í reikninginn.

Flestar loftsteinadrífur má rekja til ísagna sem hafa losnað af halastjörnum á leið þeirra í kringum sólina, að því er kemur fram í grein á Stjörnufræðivefnum. Geminítar eru hins vegar harla óvenjulegir. Þá má nefnilega rekja til smástirnis en ekki halastjörnu. Öll virðast stjörnuhröpin stefna úr stjörnumerkinu Tvíburunum (Gemini) og dregur drífan nafn sitt af því.

Smástirnið nefnist 3200 Phaethon og er aðeins fimm km að stærð. Ef til vill hefur efni losnað af því þegar það gerðist nærgöngult við sólina. Satt að segja er það þó ekki vitað. Hugsanlega er 3200 Phaethon lítið brot úr smástirninu Pallas sem er hundrað sinnum stærra og eitt stærsta smástirnið í smástirnabeltinu.

Stjörnuhröpin sem sjást verða til þegar agnir á stærð við sandkorn eða litla steina falla í gegnum lofthjúp jarðar. Agnirnar ferðast á um 35 km hraða á sekúndu að meðaltali, svo þegar ein þeirra rekst á lofthjúpinn gufar hún hratt upp vegna núnings og skilur eftir sig ljósrák.

Mesta virknin á sunnudagsmorgun fyrir birtingu

Af öllum þeim efnisstraumum sem Jörðin plægir sig í gegnum ár hvert, er Geminíta slóðin einna þéttust. Þessi drífa svíkur þess vegna sjaldnast. Mögulegt er þó að veður setji strik í reikninginn því spáð er úrkomu bæði á laugardag og sunnudag. Drífan á einnig að sjást á sunnudagskvöld.

Aðstæður til að fylgjast með Geminítum þetta árið eru góðar því tunglið rís ekki fyrr en rúmlega eitt eftir miðnætti og truflar þess vegna ekki. Ekki er þörf á neinum sérstökum búnaði til að fylgjast með drífunni. Á Stjörnufræðivefnum er mælt með því að fólk komi sér vel fyrir á dimmum stað, fjarri borgar- og bæjarljósunum á laugardagskvöld og horfi í austurátt. Þar er einnig að finna stjörnukort sem hægt er að nota til þess að staðsetja loftsteinadrífuna á himninum.

Tvíburamerkið er á lofti fram á morgun en virknin verður sennilega mest þá, rétt áður en birtir af degi. Besti tíminn til að fylgjast með er því sagður sunnudagsmorguninn 14. desember.

Grein á Stjörnufræðivefnum með stjörnukorti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert