Túlkavél fyrir Skype

Margir hafa klórað sér í höfðinu yfir þýðingum Google Translate. …
Margir hafa klórað sér í höfðinu yfir þýðingum Google Translate. Spurning er hvort að Skype Translator verði áreiðanlegra tól í framtíðinni. Skjáskot

Aðdáendur Star Trek-þáttanna hafa ábyggilegt oft óskað sér að til væri allsherjartúlkunarvél sem þýðir talað mál jafnóðum eins og sú sem birtist í þáttunum. Nú hefur Microsoft gefið út vísi af slíkri vél fyrir Skype-forritið sem á að túlka á milli ensku og spænsku um leið og fólk talar.

Forritið var fyrst kynnt í maí en nú er hægt að nálgast sýnishorn af því fyrir Windows 8.1-stýrikerfið. Það nefnist Skype Translator og á að geta túlkað á milli ensku og spænsku á mæltu máli og fjörutíu annarra mála á textaformi.

Microsoft vonar til þess að forritið geti brotið niður tungumálamúra. Nákvæmni þess sé þó lykilatriði ef menn ætli að reiða sig á það til að tala önnur tungumál. Þá hjálpar að forritið er þeim kosti gætt að verða nákvæmara eftir því sem það er notað meira.

„Skype Translator notast við gervigreind sem þýðir að því meira sem tæknin er notuð, því snjallari verður hún. Við byrjum á ensku og spænsku og eftir því sem fleiri nota sýnishornið af forritinu með þessum tungumálum, því betra verður það,“ segir Gurdeep Pall, varaforseti Skype og Lync hjá Microsoft.

Frétt The Guardian af túlkunarvélinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert