Sólarljós veitti Kepler framhaldslíf

Tölvuteiknuð mynd af Kepler-geimsjónaukanum sem leitar að fjarreikistjörnum.
Tölvuteiknuð mynd af Kepler-geimsjónaukanum sem leitar að fjarreikistjörnum. NASA Ames/JPL-Caltech/T Pyle

Með hugviti og mikilli vinnu hefur vísindamönnum tekist að halda áfram að nota Kepler-geimsjónaukann til þess að finna fjarreikistjörnur þrátt fyrir bilun sem varð í honum á síðasta ári. Stjórnendum sjónaukans tókst að nota sólarljós til að halda honum stöðugum.

Kepler-geimsjónaukinn hefur leitað að reikistjörnum á braut um fjarlægar stjörnur allt frá árinu 2009. Þegar þessar fjarreikistjörnur ganga fyrir móðurstjörnu sína séð frá sjónaukanum getur Kepler komið auga á þær með því að nema örlitlar breytingar á birtustigi stjarnanna.

Eins og gefur að skilja þarf gríðarlega nákvæmni til að nema þetta flökt í ljósinu. Til þess þarf að halda sjónaukanum stöðugum. Þegar eitt af fjórum hjólum sem halda sjónaukanum stöðugum gaf sig í maí 2013 virtust dagar hans við fjarreikistjörnuleit taldir.

Hópur vísindamanna og verkfræðinga var þó ekki tilbúinn að gefa Kepler upp á bátinn og fundu hugvitsamlega leið til að nota þrýsting frá sólarljósi til að halda sjónaukanum stöðugum. Nú hafa vísindamenn staðfest fund á fyrstu fjarreikistjörnunni eftir að verkefni Kepler var haldið áfram.

Of heit til að líf geti þrifist

Reikistjarnan nefnist HIP 116454b og er 2,5 sinnum stærri að þvermáli en jörðin. Hún þeytist í kringum móðurstjörnu sína á aðeins níu dögum og mun nær en jörðin er sólinni. Það þýðir að hún sé of heit til að líf gæti þrifist á henni, jafnvel þó að móðurstjarnan sé minni og kaldari en sólin okkar. Sólkerfið er 180 ljósára fjarlægð frá jörðinni, í áttina að stjörnumerkinu Fiskunum.

Litlar reikistjörnur á borð við þessar eru tilvaldar fyrir Kepler-sjónaukanna í þessu framhaldslífi hans sem hefur hlotið nefnið K2-verkefnið. Með því að nota gögn Kepler um stærð reikistjarnanna og upplýsingar um massa þeirra sem aflað er frá jörðinni geta stjörnufræðingar reiknað úr þéttleika reikistjarnanna til að skera úr um hvort að um berg-, vatns- eða gasreikistjörnur sé að ræða.

„Kepler-leiðangurinn sýndi okkur að reikistjörnur sem eru stærri en jörðin og smærri en Neptúnus eru algengar í Vetrarbrautinni en ekki til staðar í sólkerfi okkar. K2 er í kjörstöðu til að auka skilning okkar verulega á þessum framandi heimum og skýra frekar mörkin á milli bergreikistjarna eins og jarðarinnar og ísrisa eins og Neptúnusar,“ segir Steve Howell, vísindamaður við Kepler/K2-leiðangurinn í Ames-rannsóknarstofnun NASA í Kaliforníu.

Frétt á vef NASA um framhaldslíf Kepler-geimsjónaukans

Grein á Stjörnufræðivefnum um Kepler-sjónaukann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert