Sólin segir til sín á Norðurskautinu

Mynd af Norðurskautinu sem unnin er upp úr gögnum CERES. …
Mynd af Norðurskautinu sem unnin er upp úr gögnum CERES. Hún sýnir hvar svæðið dregur í sig sólargeislun mánuðina júní, júlí og ágúst frá 2000 til 2014. NASA Goddard's Scientific Visualization Studio/Lori Perkins

Norðurskautið drekkur nú í sig 5% meiri sólargeislun yfir sumarmánuðina en árið 2000 samkvæmt mælingum gervitungla bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Það er í samræmi við síminnkandi hafís á Norðurskautinu undanfarna áratugi en hlýnun jarðar er hvergi meira áberandi en þar.

Hafísinn er að mestu leyti hvítur og endurvarpar geislum sólarinnar. Hafið sjálft er hins vegar dökkt og dregur í sig mun meira af sólargeislunum. Eftir því sem útbreiðsla hafíssins minnkar, því minni verður endurvarpsstuðullinn á Norðurskautinu. Orka sólarinnar hitar upp hafið og eykur hlýnun sem þegar á sér stað vegna aukins magns gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. 

Minnkandi hafís hefur keðjuverkandi áhrif í för með sér. Eftir því sem meira bráðnar af honum, því meira hlýnar á Norðurskautinu. Eftir því sem hlýnar á Norðurskautinu, því örar bráðnar hafísinn og svo framvegis.

Getur ekki verið eingöngu vegna náttúrulegrar sveiflu

Rannsóknir sem stofnunin hefur gert með CERES-mælitækjum sínum sem eru um borð í nokkrum gervitunglum á braut um jörðina sýna að Norðurskautið dregur nú í sig 5% meira af sólargeislun en fyrir fimmtán árum. Það kann ekki að hljóma mikil aukning en til samanburðar sýnir ekkert annað svæði á jörðinni tilhneigingu til slíkrar breytingar til langs tíma.

Aukningin er jafnvel meiri þegar litið er til einstakra svæða á Norðurskautinu. Í Beufort-hafi, þar sem ísþekjan hefur minnkað hvað mest, er aukningin á sólarorkunni fimmfalt meðaltalið fyrir Norðurskautið í heild sinni.

Jennifer Kay, loftslagsvísindamaður við Háskólann í Colorado í Bandaríkjunum, segir að með því að afla gagna sem ná yfir lengra tímabil en fimmtán ár geti vísindamenn áttað sig betur á því hvort að breytingarnar á Norðurskautinu geti verið vegna náttúrulegrar sveiflu.

„Við þurfum langtímarannsóknir til að greina merki um loftslagsbreytingar umfram innri breytileika. Til dæmis er ekki hægt að útskýra útskýra minnkandi hafís sem menn hafa séð undanfarin þrjátíu ár eingöngu með náttúrulegum sveiflum.. Fimmtán ár eru langur tími en loftslag er oftast skilgreint sem meðaltal yfir þrjátíu ár, þannig að við erum bara hálfnuð með þessum athugunum CERES,“ segir Kay.

Fæðir keðjuverkun hlýnunar og bráðnunar hafíss

Hlýnun jarðar er hvergi eins áberandi á jörðinni og á Norðurskautinu, að því er kemur fram í frétt á vef NASA. Lofthiti hefur hækkað tvisvar til þrisvar sinnum meira en annars staðar. Hafísnum í september hefur hnignað um 13% á áratug að meðaltali. 

Frá árinu 2000 hefur Norðurskautið tapað 1,4 milljónum ferkílómetra af gömlum ís sem er þykkari en þrír metrar. Á veturna kemur ís sem er innan við tveggja metra þykkur í staðinn fyrir hann. Þetta styrkir enn frekar keðjuverkandi áhrif hlýnunar og bráðandi hafíss.

„Með yngri og þynnri ís á veturna verður kerfið veikara fyrir tapi íss við bráðnun yfir sumarið,“ segir Walt Meier, sérfræðingur í hafís við Goddard-geimrannsóknastöð NASA í Maryland.

Frétt NASA af hlýnun á Norðurskautinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert