Eldskírn Orion fest á filmu

Stórar fallhlífar tryggðu það að Orion lenti örugglega í Kyrrahafinu …
Stórar fallhlífar tryggðu það að Orion lenti örugglega í Kyrrahafinu eftir að það hafði lokið tilraunaflugi sínu út fyrir lága jarðbraut 5. desember. AFP

NASA hefur birt myndband sem sýnir hvað geimfari hefði séð hefði hann verið um borð í geimfarinu Orion þegar það féll niður til jarðar eftir tilraunaflug í byrjun desember. Hann hefði líklega krosslagt fingur um að hitaskjöldur Orion héldi þegar það kom á 32.000 km/klst hraða inn í lofthjúpinn.

Orion-geimfarið er hannað til að flytja menn til smástirna og jafnvel til Mars með tíð og tíma. Það fór í ómannað tilraunaflug 5. desember. Það stóð í um fjóra og hálfa klukkustund og varð farið þá fyrsta geimfarið sem ætlað er að flytja menn til að fara út fyrir lága jarðbraut frá Apollo-leiðöngrunum.

Myndbandið sem bandaríska geimvísindastofnunin hefur nú birt sýnir útsýnið út um kýrauga geimfarins frá því að það kom fyrst inn í lofthjúpinn aftur og þangað til það lenti í Kyrrahafinu.

Í fyrstu má aðeins sjá friðsæla bláa jörðina bera við svartan geiminn. Þegar Orion kemst hins vegar í snertingu við lofthjúpinn á ógnarhraða er það umlukið heitu jónuðu gasi. Eftir því sem loftmótstaðan og hitinn eykst breytir gasið um lit. Þurfti hitaskjöldur farins að geta þolað 2.200°C hita en hann var hannaður til að þola allt upp í 3.300°C hita.

Stýriflaugar komu geimfarinu svo á rétta braut til þess að það gæti lent á tilætluðum stað á tæplega tíu kílómetra breiðu svæði í Kyrrahafinu utan við suðurhluta Kaliforníu. Fallhlífar opnuðust svo þegar Orion var komið dýpra ofan í lofthjúpinn og hjálpuðu farinu að svífa heilu og höldnu niður á hafið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert