Vitringarnir hefðu endað í Botsvana

Nemendur í Laugarnesskóla í helgileik um fæðingu Jesú sem var …
Nemendur í Laugarnesskóla í helgileik um fæðingu Jesú sem var sagður hafa verið lagður í jötu í Betlehem og fengið heimsóknir frá vitringum og fjárhirðum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samkvæmt fæðingarsögu Jesú Biblíunnar eltu þrír vitringar bjarta stjörnu frá Austurlöndum til Betlehem þar sem hann er sagður hafa fæðst. Með því að elta stjörnuna Síríus hefði leið þeirra vissulega legið hjá Betlehem. Létu þeir ekki staðar numið þar hefðu þeir hins vegar endað á hringsóli í Botsvana.

Bandaríkjamaðurinn Randall Munreo er fyrrverandi vélmennahönnuður hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA. Hann heldur jafnframt úti vefsíðunni xkcd.com þar sem hann hefur meðal annars tekið að sér að svara óhefðbundnum spurningum á vísindalegan hátt. Ein þeirra sem hann hefur svarað er hvað gerðist ef menn eltu stjörnu eins og lýst er í öðrum kafla Mattheusarguðspjalls.

Í svari Munroe kemur fram að vandasamt sé að gera sér grein fyrir hvaða stjörnu vitringarnir hefðu átt að fylgja. Ekki séu margir vænlegir kostir á stjörnuhimni þess tíma sem gætu hafa verið Betlehemstjarnan. Gögn frá Kína bendi ekki til þess að sprengistjarna hafi lýst upp himininn á þessum tíma og engir aðrir augljósir möguleikar gangi upp. Þess fyrir utan sé töluverð sagn- og guðfræðileg óvissa um fæðingarár Jesú. Til málamiðlunar miðar Munroe því við að hann hafi fæðst 25. desember árið 1.

Hefðu vitringarnir elt Síríus, björtustu stjörnuna á næturhimninum, dag og nótt jafnvel þegar stjarnan væri fyrir neðan sjóndeildarhringinn hefðu þeir gengið í hringi í suðurátt. Að því gefnu að þeir gætu gengið á vatni hefðu þeir endað á að þramma í endalausa hringi, um þrjátíu kílómetra að þvermáli, á Suðurskautslandinu.

Vitringasegull á Norðurpólnum

Sú sviðsmynd er þó ekki raunhæf enda geta menn ekki gengið á vatni né gátu vitringarnir fylgt stjörnunni þegar hún var hinum megin við jörðina. Sé reiknað með því að þremenningarnir hafi aðeins gengið á næturnar þegar Síríus sást á himninum þá hefði leiðin í raun og veru fært þá fram hjá Betlehem. Ef þeir létu ekki staðar numið þar hefðu þeir innan nokkurra ára endað á hringsóli um Botsvana í suðurhluta Afríku.

Ekki liggur þó fyrir að vitringarnir sem Biblían segir frá hafi elt Síríus. Munroe reiknaði því líka hvert reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar hefðu leitt þá. Leggur hann til áhugaverða kenningu um uppruna jólasveinsins sem byggir á því að vitringarnir hefðu getað fylgst Venusi eftir.

„Ef vitringarnir þrír hefðu haft svifbíl sem gæti ferðast eins og á hraðbrautum yfir land og vatn (það er einhvers staðar í dulspekiritningunum) og hefðu ákveðið að elta Venus þá hefðu þeir farið sérstaklega skrítna leið. Á einum tímapunkti enda þeir nálægt Norðurpólnum í október. Þar eru sólin og Venus nærri sjóndeildarhringnum í marga mánuði, rísa og setjast á víxl, og leiða vitringana í mánaðarlangan spíral í kringum pólinn, óreiðukenndan og furðulegan vitringasegul í kringum Norðurpólinn sem sumir halda fram að sé guðfræðilegur grundvöllur sögunnar um jólasveininn [heimild vantar],“ skrifar Munroe.

Tölfræðin og fæðingartíðnin vitringunum hliðholl

Hann tekur þó fljótt fram að því miður hafi vitringarnir líklega ekki elt Venus. Reikistjarnan er eitt þekktasta fyrirbærið á himninum. Eins og breski áhugastjörnufræðingurinn Sir Patrick Moore hafi eitt sinn sagt, hafi vitringarnir þrír villst á Venusi og nýrri stjörnu þá gætu þeir ekki hafa verið mjög vitrir.

„Kannski voru þeir þó vitrari en Sir Patrick ætlar þeim. Þegar öllu er á botninn hvolft, ef þú velur stjörnu á himninum af handahófi, bendir á sjóndeildarhringinn og spáir því að barn sé að fara fæðast í þeirri átt, þá er tölfræðin, og fæðingartíðnin, þér hliðholl,“ segir Munroe.

Svar Randall Munroe um ferðir vitringanna þriggja

Grein á Vísindavefnum um hvort að Betlehemstjarnan hafi verið til

Hefðu vitringarnir þrír elt Venus hefðu þeir endað á hringsóli …
Hefðu vitringarnir þrír elt Venus hefðu þeir endað á hringsóli í kringum Norðurpólinn. Randall Munroe/xkcd.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert