Ráðist á PlayStation og Xbox

Margir sem hugðust spila tölvuleiki í gegnum netspilun PlayStation og …
Margir sem hugðust spila tölvuleiki í gegnum netspilun PlayStation og Xbox hafa þurft að sitja eftir með sárt ennið. AFP

Tölvuþrjótar bera ábyrgð á árásum sem voru gerðar á netkerfi PlayStation-leikjatölvunnar, sem kemur úr smiðju Sony, og Xbox-leikjatölvu Microsoft. Truflun varð á netspilun í gær og aftur í dag. 

Tölvuþrjótar segja að þetta hafi verið samræmd aðgerð sem hófst í gær. Fram kemur á Twitter-síðum PlayStation og Xbox að unnið væri að viðgerð. Xbox sagði ennfremur að þjónustan væri takmörkuð

Twitter-notandi sem kallar sig Eðlusveitina (e. Lizard Squad) kvaðst bera ábyrgð á árásinni. Þetta er sama nafn og hópur tölvuhakkara hefur notað sem hafa áður ráðist á Sony. Hins vegar hefur ekki fengist staðfest að um sömu tölvuþrjóta sé að ræða. 

Sony varð fyrir alvarlegri árás fyrr í þessum mánuði þar sem mikið magn af gögnum var stolið. Bandarísk stjórnvöld hafa sakað Norður-Kóreu um að bera ábyrgð á árásinni vegna óánægju þarlendra yfirvalda í garð gamanmyndarinnar The Interview, sem fjallar um morðið á Kim Jon-Un, leiðtoga N-Kóreu. 

Sony sagðist vita af því í dag að notendur hefðu átt í vandræðum með að skrá sig inn í kerfið. Málið væri í skoðun. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert