PlayStation Network virkar aftur

PlayStation Network er komið í lag eftir að hafa legið …
PlayStation Network er komið í lag eftir að hafa legið niðri í kjölfar tölvuárásar. AFP

Sony, sem á PlayStation, hefur staðfest að netkerfi þeirra sé aftur orðið virkt og að netárás hafi átt sér stað en þetta kemur fram þremur dögum eftir að netkerfi leikjatölvanna PlayStation og Xbox lá niðri.

Fullyrt er að tölvuþrjótar hafi brotist í tölvukerfin á jóladag sem hafði fyrrgreindar afleiðingar fyrir netkerfi leikjatölvanna sem báðar voru vinsælar í jólapökkum tölvuáhugamanna þessi jólin. Netkerfi Xbox hefur þó virkað nánast eðlilega frá því á föstudag.

„PlayStation Network, og einhver önnur tölvuleikjaþjónusta, varð fyrir árás um hátíðarnar með miklu magni af tilbúinni umferð sem var sérstaklega gerð til að rjúfa tenginguna og leikaspilun þar sem fólk er beintengt," sagði Catherine Jensen, aðstoðarforstjóri gæðadeildar innan Sony sem snýr að upplifun neytenda, í bloggfærslu sinni seint i gær. „PlayStation Network komið aftur í gang,“ bætti hún við.

Á sama tíma hafa öll forrit í Xbox virkað frá því á föstudag.

Leikjaunnendur fóru mikinn á Twitter til að fagna endurkomu PlayStation Network.

„Ég var hér um bil búinn að leggja PS4 á hilluna og skipta henni fyrir Xbox one. Rétt slapp," sagði Twitter notandinn @xander63090.

Hópur tölvuþrjóta sem kalla sig Lizard Squad lýsti yfir ábyrgð á árásinni en Sony hefur áður verið skotmark hópsins. Fyrr í mánuðinum varð Sony fyrir árás þar sem miklu magni gagna var stolið frá fyrirtækinu. Bandaríkjamenn hafa sakað Norður-Kóreu um að hafa staðið að baki árásarinnar þar sem yfirvöld í Norður-Kóreu hafa verið mjög ósátt að undanförnu vegna gamanmyndarinnar „The Interview“ sem lítillækkar leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-Un.

Sérfræðingar telja þó ólíklegt að bein tengsl séu a milli árásinnar á Sony Pictures og Sony PlayStation og að árásin á PlayStation bendi frekar til þess að hópur áhugamana hafi viljað skapa sér nafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert