Allt heimsins súkkulaði í sóttkví

Súkkulaðirækt í Úganda.
Súkkulaðirækt í Úganda. AFP

Ný aðstaða hefur nú verið opnuð í borginni Reading í Englandi, til að halda vörð um framtíð súkkulaðis. Spurn eftir súkkulaði hefur síðustu ár aukist hraðar en heimsbirgðir geta haldið í við, og útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram.

Næstum þriðjungur súkkulaðiræktar fer til spillis ár hvert vegna sjúkdóma og annarra kvilla sem plönturnar eiga við. Ný afbrigði tegundarinnar eru lykillinn að því að berjast gegn framgöngu þessara sjúkdóma. Þar kemur Alþjóðlega Súkkulaðisóttkvíarmiðstöðin til skjalanna.

Síðan 1985, þegar Háskólinn í Reading tók við varðveislu súkkulaðiafbrigða af Konunglegu Grasagörðunum í London, hafa allar nýjar súkkulaðijurtir farið í gegnum aðstöðu í Shinfield skammt frá háskólanum. Það fyrirkomulag þótti ekki henta lengur vegna aukinnar hættu á að jurtirnar sýktust af umhverfinu.

Líkja eftir hitabeltisloftslagi

„Eitt mikilvægasta atriðið varðandi framþróun súkkulaðis er traust framboð af hreinu, heilbrigðu og áhugaverðu kókóa,“ segir prófessor Paul Hadley, verkefnisstjóri súkkulaðiverkefnisins við Háskólann í Reading.

„Þú þarft ákveðið fyrirkomulag til að tryggja að við flutning efnisins þá sé ekki verið að flytja sjúkdóma og pestir með því.“

Nýja aðstaðan fyrir sóttkvína kostaði 1 milljón breskra punda eða sem nemur tæpum 200 milljónum íslenskra króna. Þar er safnað í kringum 400 afbrigðum í háþróað gróðurhús sem á að auðvelda sóttkvíarferlið og gera það ódýrara, hraðara og umhverfisvænna.

„Við notum gríðarmikla orku til að halda jurtunum í loftslagi sem líkir eftir hitabeltinu og nýja aðstaðan auðveldar það til muna,“ segir prófessor Hadley í samtali við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert