Loksins sýklalyf gegn ofurbakteríum

Vonast er til þess að nýja sýklalyfið verði komið á …
Vonast er til þess að nýja sýklalyfið verði komið á markað innan fimm ára. AFP

Vísindamenn hafa uppgötvað nýja tegund sýklalyfs sem eru talið geta breytt miklu í baráttunni við ofurbakteríur sem hefðbundin sýklalyf virka ekki á. Þetta er fyrsta nýja sýklalyfið í þrjátíu ár.

Lyfið er kallað teixobactin og það var teymi vísindamanna í Háskóla í Boston sem uppgötvaði það. Lyfið er m.a. sagt nýtast gegn berklum og blóðeitrun og gæti komið á markað innan fimm ára. Grein um rannsóknina er birt í nýjasta tölublaði Nature.

Uppgötvun lyfsins er ekki síst talin merkileg fyrir þær sakir að hún gæti vísað veginn í þróun á nýrri kynslóð sýklalyfja. Það skýrist af því hvernig lyfið var uppgötvað.

Bakteríur hafa þróast með þeim hætti að engar örverur bíta á þeim. Því er virkni sýklalyfja takmörkuð á slíkar ofurbakteríur. Vísindamenn hafa svo átt í erfiðleikum með að þróa lyf þar sem ekki er hægt að rækta meirihluta örvera á rannsóknarstofum.

Vísindamannateymið í Boston uppgötvaði hins vegar nýja aðferð við ræktunina. Hún felst í því að nota rafflögu til að rækta örverur og síðan einangra þá eiginleika þeirra sem nýtast við þróun sýklalyfja. Vísindamennirnir komust svo að því að eitt slíkt efni, teixobactin, nýtist vel gegn algengum bakteríusýkingum. 

Fyrsta sýklalyfið, pensilín, var uppgötvað af Alexander Fleming árið 1928 og yfir 100 slík lyf hafa fundist síðan þá. Engin ný tegund slíkra lyfja hefur þó fundist frá árinu 1987.

Sú staðreynd, og einnig sú að mjög mikið magn sýklalyfja hefur verið gefið fólki í gegnum árin, hefur gert það að verkum að bakteríur eru orðnar ónæmar fyrir lyfjunum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur vakið athygli á þeirri hættu sem fylgir ónæmum bakteríum.

Vísindamennirnir í Boston telja ólíklegt að bakteríur myndi ónæmi fyrir teixobactin næstu þrjá áratugina. Tilraunir á músum lofa góðu. Lyfið hefur unnið á bakteríusýkingum og án aukaverkana. Nú er verið að undirbúa næsta stig rannsóknarinnar: Að prófa lyfið á mönnum.

Guardian

Telegraph

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert