„Sæl, mannvera“

Dróninn getur þekkt andlit fólks.
Dróninn getur þekkt andlit fólks. Skjáskot

„Það eru svo sem engin sérstök praktísk not fyrir þetta. Þetta var aðallega til gamans gert,“ segir Andri Mar Björgvinsson, tölvunarfræðingur hjá Kolibri, um dróna sem fyrirtækið sendi í keppni í Háskólanum í Reykjavík um helgina. Dróninn getur þekkt andlit og heilsað upp á fólk.

Fyrirtækið birtir skemmtilegt myndskeið af drónanum að störfum á facebooksíðu sinni en þar sést hann virða fyrir sér manneskju. Hann var búinn myndavél og ýmsum skynjurum sem gerðu honum kleift að þekkja andlit fólks. Dróninn var framlag fyrirtækisins til forritunarkeppni fyrir flygildi sem fyrirtækið OZ stóð fyrir í HR á laugardag.

„Við fórum mikið út í að hugsa um að gera leiki fyrir drónann að gera. Eitt var að fara og heilsa fólki. Hann fór upp að fólki og þegar hann var kominn nógu nálægt sagði hann: „Hello, human“ og fór svo til baka og fór að leita að einhverjum öðrum,“ segir Andri Mar.

Dróninn var tengdur þráðlausu neti en í gegnum það gátu stjórnendur hans gefið honum skipanir. Skynjararnir og nemarnir gáfu þeim upplýsingar um hversu nálægt dróninn væri fólki og gátu stjórnendur hans þannig fært hann nær því eða fjær.

Á myndskeiðinu sem Kolibri birtir á facebooksíðunni lenti dróninn þó í smáerfiðleikum og ákallaði eina þekktustu persónu kvikmyndasögunnar, ofurtölvuna HAL 9000 úr mynd Stanleys Kubricks „2001: A Space Odyssey“.

„Hann sá manneskjuna en þegar hann fór aðeins til hliðar hætti hann að sjá hana. Þá sagði hann „Dave, I'm so alone“,“ segir Andri Mar og hlær. Hér fyrir neðan má svo sjá myndskeiðið af drónanum að störfum.

Fyrri frétt mbl.is: Glímdu við lögmál eðlisfræðinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert