Hvítur ís á rauðu reikistjörnunni

Mynd sem Mars Express tók af rauðu reikistjörnunni Mars í …
Mynd sem Mars Express tók af rauðu reikistjörnunni Mars í dag. ESA

Evrópska geimstofnunin ESA hefur birt nýjar myndir sem geimfar þess, Mars Express, hefur tekið af nágrannareikistjörnu okkar Mars. Á myndunum sést vel önnur pólhetta reikistjörnunnar þar sem vatns- og þurrís þekur annars rauðleitt yfirborðið.

Myndirnar voru teknar með VMC-myndavél Mars Express. Myndavélinni var ekki ætlað að vera vísindatæki heldur átti hún upphaflega að ná myndum af því þegar lendingarfarið Beagle 2 skildi sig frá Mars Express í desember árið 2003. Núna tekur hún hins vegar myndir af reikistjörnunni og eru þær birtar nær sjálfkrafa á Flickr-síðu ESA undir nafninu Mars-vefmyndavélin.

Á báðum pólsvæðum Mars eru miklar ísbreiður, aðallega úr vatnsís en þaktar þurrís á yfirborðinu. Norðurpóllinn er um 1.000 km í þvermál á sumrin og allt að tveggja km þykkur, að því er kemur fram í grein á Stjörnufræðivefnum. Suðurpóllinn er öllu smærri eða 350 km í þvermál og 3 km þykkur en inniheldur engu að síður nægt vatn til að þekja reikistjörnuna með 11 metra þykku lagi samkvæmt ratsjárgögnum frá Mars Express.

Pólarnir hafa gríðarleg áhrif á lofthjúp Mars. Yfir háveturinn kólnar svo svakalega að 25-30% af koldíoxíðinu í lofthjúpnum þéttist í þurrís og leggst yfir pólsvæðin sem risavaxin pólhetta. Á norðurpólinn safnast þurrísinn saman í um eins metra þykkt lag á meðan suðurpóllinn er alltaf þakin átta metra þykkum þurrís. Þegar vorar og hlýnar þiðnar þurrísinn og stígur upp í lofthjúpinn svo hann þykknar staðbundið á ný. Á sama tíma verða til gríðarsterkir heimskautavindar sem ná allt að 110 m/s vindhraða. Þessar árstíðabreytingar bera með sér gífurlegt magn rykagna og vatnsgufu sem mynda hrím og stór klósigaský.

Grein á Stjörnufræðivefnum um pólhetturnar á Mars

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert