Halastjarnan á við 20 Holuhraun

Nærmynd sem Rosetta tók af yfirborði halastjörnunnar 67P/Churyumov–Gerasimenko.
Nærmynd sem Rosetta tók af yfirborði halastjörnunnar 67P/Churyumov–Gerasimenko. ESA/Rosetta/MPS fyrir OSIRIS Team MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA

Fyrstu niðurstöður mælitækja könnunarfarsins Rosettu sem er á braut um halastjörnuna 67P/Churyumov–Gerasimenko hafa nú verið birtar en þær benda meðal annars til þess að vísir að veðri sé að finna á henni. Rúmmál hennar er á við tuttugu Holuhraun en eðlismassi hennar er svo lítill að hún flyti á vatni. 

Sagt er frá niðurstöðunum í sérhefti vísindaritsins Science en Stjörnufræðivefurinn hefur tekið þær saman. Niðurstöðurnar byggja á mælingum sem gerðar voru skömmu fyrir og eftir að Rosetta kom að halastjörnunni í ágúst í fyrra. Til þessa hefur OSIRIS myndavélin, nærmyndavél Rosettu ljósmyndað um 70% af yfirborðinu. Enn á eftir að ljósmynda svæði á suðurhluta halastjörnunnar, á stöðum sem ekki hafa notið mikillar dagsbirtu frá því Rosetta kom á áfangastað.

Heildarrúmmál halastjörnunnar er 21,4 km3. Hún er því álíka rúmmálsmikil og Trölladyngja, stærsta dyngja Íslands, eða á við 20 Holuhraun. Massinn er áætlaður 10 milljarðar tonna svo eðlismassinn er samkvæmt því um 470 kg/m3, helmingi minni en eðlismassi borgarísjaka.

Halastjarnan er úr blöndu íss og ryks sem hefur eðlismassa milli 1500-2000 kg/m3 sem þýðir að halastjarnan er mjög gleyp eða óþétt. Líklega er um 70-80% af innri byggingu hennar lausbundnir ís-ryk klumpar og lítil holrúmum á milli þeirra.

Fyrirbæri sem líkjast sandöldum á jörðinni og Mars

Í ljós hefur komið að gas sem losnar af halastjörnunni leikur líka mikilvægt hlutverk í að flytja ryk meðfram yfirborðinu og myndast þá nokkurs konar „veður“.

Sumstaðar má sjá gárur í rykinu, líkt og gjarnan sést á sandöldum á jörðinni og Mars. Annars staðar sjást vindskaflar eða „halar“ við hnullunga sem verka eins og náttúrulegar hindranir á móti „vindáttinni“.

Enn er ekki vitað hvers vegna halastjarnan virðist tvískipt. Sú staðreynd að báðir hlutarnir hafa mjög svipaða efnasamsetningu bendir til þess að líklegast megi rekja lögunina til veðrunar. Gögnin geta þó ekki útilokað aðra sviðsmynd: Að tvær halastjörnur sem mynduðust á sama svæði í sólkerfinu hafi runnið saman í eina.

Nánar má lesa um fyrstu niðurstöður mælinga Rosettu á Stjörnufræðivefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert