SPIDER lentur á Suðurskautinu

Skotbíllinn The Boss hélt SPIDER uppi áður en sjónaukinn var …
Skotbíllinn The Boss hélt SPIDER uppi áður en sjónaukinn var sendur á loft með milljón rúmmetra helíumloftbelg á nýársdag. Jón Emil Guðmundsson

Sjónaukinn SPIDER sem íslenski stjarneðlisfræðingurinn Jón Emil Guðmundsson vinnur við er lentur á Suðurskautslandinu eftir sextán daga á lofti. Svo virðist sem að tilraunin hafi virkað sem skyldi en henni er ætlað að rannsaka örbylgjukliðinn, ljósið frá upphafsdögum alheimsins.

Í frétt á vef NASA lenti SPIDER á afskekktu svæði á Suðurskautslandinu en sjónaukinn var sendur á loft frá McMurdo-rannsóknarstöðinni á nýársdag. Þar er haft eftir Jamie Bock, yfirmanni SPIDER-teymisins við Caltech-háskólann í Kaliforníu að svo virðist sem að tilraunin hafi gengið að óskum. Ekki sé þó hægt að fullyrða neitt fyrr en búið er að sækja gögnin í sjónaukann.

Tilgangur SPIDER er að rannsaka ljós örbylgjukliðsins svonefnda. Hann er bakgrunnsgeislun sem fyllir allan alheiminn og er nokkurs konar endurómur frá Miklahvelli, upphafi alheims okkar. Niðurstöðurnar geta varpað frekara ljósi á tilvist þyngdarbylgna sem afstæðiskenning Alberts Einstein spáði fyrir um. 

Fréttin á vef NASA

Fyrri frétt mbl.is: Skaut upp sjónauka á nýársnótt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert