Gapandi gin halastjörnuhnoðra

Mynd Very Large Telescope af CG4-halastjörnuhnoðranum.
Mynd Very Large Telescope af CG4-halastjörnuhnoðranum. ESO

Það eru ekki bara úr skýjunum á jörðinni sem menn geta séð ýmsar fígúrur. Halastjörnuhnoðrinn CG4 líkist einna helst gapandi gini himneskrar veru sem teygir sig yfir 1,5 ljósára vegalengd. Menn þekkja enn ekki eðli halastjörnuhnoðra en þrátt fyrir nafnið hafa þeir ekkert með halastjörnur að gera.

VLT-sjónauki Evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli (ESO) tók nýlega mynd af halastjörnuhnoðranum CG4 þar sem hann glóir dauflega. Hann er í um 1.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Skutnum. Höfuð CG4, sá hluti sem sést á myndinni, minnir um margt á höfuð risavaxinnar skepnu og er 1,5 ljósár að þvermáli. Hali hnoðrans — sem stefnir niður og sést ekki á myndinni — er um átta ljósár að lengd. Skýið er því fremur lítið á stjarnfræðilegan mælikvarða, að því er segir í frétt á vef ESO.

Eðli halastjörnuhnoðra er mönnum enn nokkur ráðgáta. Árið 1976 fundust nokkur fyrirbæri á myndum sem teknar voru með breska Schmidt-sjónaukanum í Ástralíu og svipaði til halastjarna að útlit. Útlitsins vegna voru fyrirbærin nefnd halastjörnuhnoðrar, jafnvel þótt þau tengist halastjörnum ekki nokkuð. Öll fyrirbærin fundust á víðfeðmu svæði í glóandi gasskýi sem kallast Gum-þokan. Þau hafa þétt, dökk og rykug höfuð og langan daufa hala sem vísa burt frá sprengistjörnuleifinni í Seglinu, sem er í Gum-þokunni miðri. Þótt fyrirbærin séu tiltölulega nálæg fundust þau mjög seint vegna þess hve dauf þau eru.

Höfuðið er smám saman að eyðast

Smæðin er einkennandi fyrir halastjörnuhnoðra. Allir halastjörnuhnoðrar sem fundist hafa í Vetrarbrautinni hingað til eru einangruð og fremur lítil ský úr óröfuðu gasi og ryki en umvafin heitu, jónuðu efni.

Höfuð CG4 er enda þykkt gas- og rykský sem sést einungis vegna þess að nálægar stjörnur lýsa það upp. Ljósið sem stafar af stjörnunum er smám saman að eyða höfði hnoðrans og sverfa burt agnirnar örsmáu sem dreifa ljósi stjarnanna. Í CG4 er þó svo mikið ryk að það dygði í nokkrar stjörnur á stærð við sólina. Í CG4 eru enda nýjar stjörnur að myndast, hugsanlega vegna þess að geislun frá nálægum stjörnum í Gum-þokunni hratt því ferli af stað.

Stjörnufræðingar greinir enn á um hvers vegna CG4 og aðrir halastjörnuhnoðrar eru svona útlits. Tvær tilgátur hafa verið settar fram. Sumir stjörnufræðingar telja að halastjörnuhnoðrar eins og CG4 gætu hafa verið kúlulaga í upphafi en hafi síðar afmyndast vegna áhrifa frá nálægum sprengistjörnum. Aðrir stjörnufræðingar líta svo á að stjörnuvindar og jónandi geislun frá heitum og efnismiklum OB-stjörnum móti halastjörnuhnoðrana. OB-stjörnur eru heitustu og efnismestu stjörnur alheimsins. Í fyrstu gætu áhrifin frá þeim leitt til sérkennilega nefndra myndana sem kallast fílsranar og verða síðar að halastjörnuhnoðrum.

Til að átta sig betur á því þurfa stjörnufræðingar að mæla massa, þéttleika, hitastig og hraða efnisins í hnoðrunum. Allt þetta má ákvarða með því að mæla litróf frá sameindum í skýinu og það er auðveldast að gera á millímetra bylgjulengdum — bylgjulengdum eins og þeim sem Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) mælir.

Eingöngu tekin fyrir fagurfræðina og vísindamiðlun

Þessi mynd var sett saman fyrir ESO Cosmic Gems-verkefnið sem snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frétt á vef ESO um halastjörnuhnoðrann á íslensku

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert