Ímyndunaraflið það eina sem takmarkar

Hönnunarkeppni verkfræðinema í fyrra.
Hönnunarkeppni verkfræðinema í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Hönnunarkeppni véla- og iðnverkfræðinema við Háskóla Íslands verður haldin 7. febrúar í Hörpu, og er haldin á sama tíma og UT-messan í Hörpunni, og er hluti af dagskrá hennar. Keppnin er hluti af opinni dagskrá UT-messunnar. 11 lið eru skráð til leiks, en skráningu lýkur á laugardaginn. Keppnin hefst klukkan 12:30.

„Það er erfitt að lýsa því en myndbandið sýnir hvað keppendur þurfa að leysa erfiðar þrautir,“  segir Jón Torfi Hauksson, nemi í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og einn af skipuleggjendum keppninnar, en Dagur Ingi Ólafsson og Bjarki Jónsson sjá einnig um skipulag keppninnar. Tölvuteiknað myndband af brautinni í ár má sjá hér að neðan.

„Það er ekki bara ein lausn, þetta gefur fólki tækifæri til að vera svolítið skapandi.“ Jón Torfi segir tækið ekki mega vera stærra en 40x40x40, ekki vega meira en 10 kíló og ekki kosta meira en 30.000 krónur, sem hann segir ekki mikla peninga sem séu fljótir að fara.

„Þannig að þetta er líka keppni í útsjónasemi og nýtingu á auðlindum,“ segir Jón Torfi. Hann segir Legokubba ennþá algengt bygingarefni, en sumir keppendur láti skera út í áli, og þá séu laserskornar plötur mjög vinsælar.

„Þá er þetta orðin meiri keppni í verkfræði heldur en ef þú notar til dæmis timbur. Þá er þetta bara spurning um hversu góður smiður þú ert. Það helst nefnilega ekki endilega í hendur,“ bætir hann við.

Hann segir mjög skemmtilegt að sjá hversu margir séu tilbúnir að leggja mikla vinnu í smíði farartækisins. „Svo eru líka þeir sem taka kannski eina helgi í að smíða tækið og vinna kannski.“

Kynti undir áhuga á verkfræði

Jón Torfi segir keppnina, sem hefur verið haldin frá árinu 1991, hafa tvímælalaust haft áhrif á verkfræðinema og haft áhrif á námsval margra. „Ekki spurning, ég er sjálfur dæmi um það.  Við í nefndinni sem skipuleggjum þetta höfum allir horft á keppnina og alltaf ætlað okkur að taka þátt. Þetta er eitthvað sem flestallir sem eru í verkfræði horfa á og margir sem vilja taka þátt, en námið er krefjandi og tímafrekt.“

Verðlaun í kepninni eru ekki af verri endanum. Nýherji gefur sigurliðinu innleggsnótu í Nýherja upp á 400.000 krónur. Besta hönnunin, sem valin verður af dómnefnd, fær 200.000 króna peningaverðlaiun frá Marel, og frumlegasta hönnunin færi einnig 200.000 króna peningaverðlaun frá Marel, en Marel og Nýherji eru sem fyrr aðalstyrktaraðilar keppninnar.

Jón Torfi segir að ekkert farartæki geti fengið fleiri en ein verðlaun. „Við ætlum ekki að hafa það þannig, nei. Þannig að þrjú farartæki fá verðlaun, jafnvel þótt farartækið sem vinnur sé frumlegast og best,“ segir Jón Torfi. „Við reyndum að hafa brautina í ár erfiða en samt þannig að þú getir komið með öðruvísi lausnir.“

Allt hægt ef þú hefur áhuga

Eins og áður segir er keppnin hluti af opnu dagskrá UT-messunnar í Hörpu, og verður fólki frjálst að kíkja við á keppninni, án þess þó að fylgjast með henni allri. „Það að þetta sé í Hörpu gerir það vonandi að verkum að fólk geri sér ferð að sjá þetta. Harpan er líka betur búin til að halda svona viðburð en t.d. Háskólabíó, þar sem þetta hefur oft verið haldið áður.“

Engar kröfur eru gerðar til þátttakenda aðrar en þær að þeir hafi áhuga á að taka þátt, og þarf einn í liðinu að vera nemandi við Háskóla Íslands. „Ég held að í einu liðinu sé til dæmis nemandi í vöruhönnun,“ segir Jón Torfi. „Þegar þú leggur þig fram og kynnir þér hlutina, þá geturðu búið til ótrúlegustu hluti. Ef þú hefur áhuga, þá er allt hægt, því þitt eigin ímyndunarafl er það eina sem takmarkar þig.“

Facebooksíða keppninnar

Jón Torfi Hauksson.
Jón Torfi Hauksson.
Jón Torfi Hauksson, Dagur Ingi Ólafsson og Bjarki Jónsson.
Jón Torfi Hauksson, Dagur Ingi Ólafsson og Bjarki Jónsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert