Lara Croft sannar lögmál Moores

Fornleifafræðingurinn og ævintýramanneskjan Lara Croft er flestum tölvuleikjaspilurum kunnug, en þar að auki er hún þekkt af hvíta tjaldinu þar sem hún var leikin af Angelinu Jolie í kvikmyndinni Lara Croft - Tomb Raider frá árinu 2001. Myndin var að hluta til tekin upp á Íslandi.

Lara Croft birtist mönnum fyrst árið 1996 í tölvuleiknum Tomb Raider, en nýjasti leikurinn í seríunni kom út árið 2014. Vefsíðan Halloweencostumes vekur athygli á þeim miklu breytingum sem hafa orðið á Löru á þeim tæpu tveimur áratugum sem hún hefur verið á tölvuskjáum manna.

Vefsíðan Vox bendir á að umrædd breyting sé sönnun á hinu svokallaða lögmáli Moores, þess efnis að tölvur verði tvöfalt öflugri á tveimur árum. Til marks um þetta er bent á upplausnina í andlitsdráttum Löru. Árið 1996 voru aðeins nokkur hundruð marghyrningar (e. polygons) notaðir til að skapa andlit hennar. Árið 2014 voru þeir hins vegar tugir þúsunda, eins og sést greinilega á þessari mynd. Lengst til vinstri er Lara eins og hún leit út 1996, til hægri er hún frá árinu 2014. Það er ekki hægt að segja annað en hún eldist vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert