Ein þriggja uppspretta súrefnis

Sprengistjörnuleifarnar G292.0+1.8. Súrefni er gult og appelsínugult, magnesíum grænt en …
Sprengistjörnuleifarnar G292.0+1.8. Súrefni er gult og appelsínugult, magnesíum grænt en kísill og brennisteinn blár. NASA/CXC/SAO

Ofurskálin (e. Superbowl) á sér marga aðdáendur víða um heim, þar á meðal starfsmenn bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Þeir héldu upp á leikdaginn í gær með því að birta myndir af sprengistjörnum (e. supernova), ofurstórum sprengingum í geimnum. Ein þeirra er mynd af einni af örfáum uppsprettum súrefnis sem fundist hafa í Vetrarbrautinni.

Sprengistjörnur er það kallað þegar massamiklar sólstjörnur enda lífdaga sína í ógurlegri sprengingu sem þeytir innviðum þeirra út í geiminn. Öll frumefni í alheiminum sem eru þyngri en vetni og helíum mynduðust í kjarna slíkra stjarna og losnuðu í sprengistjörnum. Þá gátu þessi þyngri efni myndað reikistjörnur og á endanum menn og aðrar dýrategundir.

Ein af myndunum sem NASA birti í tilefni Ofurskálarinnar í gær er af sprengistjörnuleifunum G292.0+1.8. Hún er í um 20.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Leifarnar eru aðeins einar af þremur sem þekktar eru í Vetrarbrautinni okkar sem vitað er að innihaldi mikið magn súrefnis.

Myndin var tekin með Chandra-röntgensjónaukanum sem fagnaði fimmtán ára afmæli sínu í fyrra. Hún sýnir að leifarnar eru að þenjast út í geiminn. Súrefnið er gult og appelsínugult á myndinni en önnur frumefni mynduðust einnig inni í kjarna sprengistjörnunnar. Magnesíum kemur fram sem grænt en kísill og brennisteinn í bláum lit.

Grein á Stjörnufræðivefnum um sprengistjörnur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert