Þrefaldur sólmyrkvi á Júpíter

Við upphaf þrefaldrar þvergöngu Júpíterstunglanna Íó, Evrópu og Kallistó. Vinstra …
Við upphaf þrefaldrar þvergöngu Júpíterstunglanna Íó, Evrópu og Kallistó. Vinstra megin sést Kallistó en undir henni er skuggi frá Evrópu sem er utan myndarinnar. Hægra megin sést Íó upp við skuggann frá Kallistó en skuggi Íós er lengra til hægri. NASA, ESA og Hubble Heritage Team

Sá sjaldgæfi atburður átti sér stað undir lok janúarmánaðar að þrjú af fjórum stærstu tunglum reikistjörnunnar Júpíters ollu sólmyrkva á sama tíma þegar þau gengu á milli gasrisans og sólarinnar. Atburður sem þessi á sér aðeins stað einu sinni eða tvisvar á áratug.

Hubble-geimsjónauki bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA náði myndum af þvergöngu Galíleótunglanna svonefndu, Evrópu, Kallistó og Íó, 23. janúar. Tunglin þrjú, ásamt Ganýmedes, eru langstærst af þeim sautján tunglum sem ganga á braut um Júpíter, stærstu reikistjörnu sólkerfis okkar. 

Tunglin eru frá tveimur og upp í sautján daga að fara einn hring í kringum Júpíter, að því er segir í frétt á Stjörnufræðivefnum. Til samanburðar tekur það tunglið okkar tæpan mánuð að fara einn hring um jörðina. Annað slagið ganga tunglin fyrir Júpíter frá jörðu séð og varpa þá skuggum á skýjaþykknið fyrir neðan í sólmyrkvum. Sjaldgæft er þó að sjá þrjú tungl ganga fyrir Júpíter í sama mund. Það gerist aðeins einu sinni til tvisvar á áratug.

Það er nánast eins og tunglin séu alveg ofan í Júpíter en í raun er fjarlægðin frá reikistjörnunni og til tunglanna mikil. Þannig er Íó lengra frá Júpíter en tunglið er frá jörðinni, eða í um 421.000 km fjarlægð að meðaltali. Hin tunglin eru enn lengra í burtu.

Grein um þrefalda sólmyrkvann á Júpíter á Stjörnufræðivefnum

Loading player...

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert