Sólin í nýju ljósi

Sólin eins og hún kemur fyrir sjónir Solar Dynamics Observatory.
Sólin eins og hún kemur fyrir sjónir Solar Dynamics Observatory. Ljósmynd/NASA

Sólarkönnunarfar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA hefur nú verið starfandi í fimm ár. Af því tilefni hefur NASA birt stórbrotið myndskeið sem sett er saman úr myndum af þessum logandi eldhnetti sem er undirstaða lífs á jörðinni sem geimfarið hefur tekið á þessum fimm árum.

Solar Dynamics Observatory fylgist grannt með sólinni okkar en myndskeiðið sem NASA hefur nú birt er sett saman úr myndum sem teknar voru á átta klukkustunda fresti frá 2010 til 2015. Mismunandi litirnir sem sjást í myndskeiðinu sýna sólina í mismunandi bylgjulengdum ljóss.

Sólin er í raun risavaxinn gashnöttur. Svo stór er hún að 109 jarðir kæmust fyrir í röð þvert í gegnum hana. Sólin er langstærsti hnöttur sólkerfisins og inniheldur 99,9% af massa þess, að því er segir í grein á Stjörnufræðivefnum. Geislar sólarinnar myndast við kjarnasamruna sem umbreytir vetni í helíum. Hitastig hennar er um 5.600°C sem gefur henni hvítan lit. Það eru svo árekstrar sólargeislanna sem frá henni stafa við sameindir í lofthjúp jarðarinnar sem gefur sólinni sinn kunnuglega gula lit í augum okkar mannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert