Þegar vetrarbrautir rekast á

NGC 7714 er þyrilvetrarbraut í um 100 milljón ljósára fjarlægð …
NGC 7714 er þyrilvetrarbraut í um 100 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Eins og sést á mynd Hubble hafa armar hennar afmyndast og teygir angi gass sig í áttina að minni vetrarbrautinni. Myndin er samsett úr myndum sem teknar voru á mismunandi bylgjulengdum ljóss. Fyrirbærin í kringum vetrarbrautina eru aðrar og fjarlægari vetrarbrautir. ESA, NASA

Erfitt er að gera sér í hugarlund það sjónarspil þegar tvö risavaxin fyrirbæri eins og vetrarbrautir rekast á. Hubble-geimsjónaukinn hefur hins vegar fest slíkan atburð á filmu sem átti sér stað fyrir 100-200 milljónum ára. Viðbótarefnið hefur valdið aukinni stjörnumyndun í stærri vetrarbrautinni.

Myndin sýnir hvernig þyrilvetrarbrautin NGC 7714 hefur afmyndast eftir að hún nálgaðist of mikið minni stjörnuþoku, NGC 7715. Þyrilvetrarbrautin er í um 100 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni en áreksturinn er talinn hafa átt sér stað fyrir 100-200 milljónum ára.

Þessi risavaxni árekstur breytti lögun beggja vetrarbrautanna og myndaði nokkurs konar brú á milli þeirra sem leyfi gasi og öðrum efnum að flæða frá þeirri minni til þeirrar stærri. Þetta innflæði efnis hefur aukið á stjörnumyndunina í NGC 7714, að sögn vísindamanna evrópsku geimstofnunarinnar ESA. Mest er myndunin í bjartri miðjunni en hún á sér stað um alla vetrarbrautina. Vísindamenn hafa gefið parinu hið rómantíska nafn Arp 248.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið sem unnið hefur verið upp úr myndum Hubble af vetrarbrautunum tveimur og árekstri þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert