Á braut um dvergreikistjörnu

Útsýni Dawn af Ceresi sunnudaginn 1. mars. Myndin var tekin …
Útsýni Dawn af Ceresi sunnudaginn 1. mars. Myndin var tekin úr um 48.000 kílómetra fjarlægð. NASA/JPL-Caltech/UCLA/MPS/DLR/IDA

Geimfarið Dawn varð í dag fyrsta manngerða farið til þess að komast á braut um dvergreikistjörnu þegar Ceres fangaði það með þyngdarkrafti sínum. Þau merki sem stjórnendur farsins hafa fengið frá því benda til þess að það sé við hestaheilsu.

Dawn var í um 61.000 kílómetra fjarlægð frá Ceres þegar farið komst á braut um dvergreikistjörnuna sem liggur í smástirnabeltinu á milli reikistjarnanna Mars og Júpíters kl. 12:39 að íslenskum tíma. Tæpri klukkustund síðar fengu stjórnendur Dawn hjá NASA í Pasadena í Kaliforníu staðfestingarmerki frá geimfarinu um að það væri í góðu lagi og sérstakar jónaflaugar þess virkuðu sem skildi. Dawn er fyrsta geimfar NASA sem notast við jónaflaugar.

Fyrsta farið sem kemst á braut um tvö fyrirbæri

Ferðalag Dawn hefur tekið sjö og hálft ár en á þeim tíma hefur það ferðast um 4,9 milljarða kílómetra. Fyrir utan að verða fyrsta geimfarið til að komast á braut um dvergreikistjörnu þá fær Dawn þá nafnbót að verða fyrsta geimfarið í sögunni sem kemst á braut um tvö mismunandi fyrirbæri. Árin 2011 og 2012 var Dawn á braut um smástirnið Vestu en það og Ceres eru langstærstu fyrirbærin í smástirnabeltinu.

„Við erum glöð. Það verður nóg að gera næsta eina og hálfa árið en nú erum við komin í stöðu með nægar birgðir og kröftuga áætlun um að ná vísindalegum markmiðum okkar,“ segir Chris Russell, yfirvísindamaður við Dawn-leiðangurinn hjá Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA).

Eftir um sex vikur mun Dawn hefja vísindarannsóknir sínar á dvergreikistjörnunni af fullum þunga og munu þær standa yfir þar til leiðangrinum lýkur í júní 2016. Þetta er í fyrsta skipti sem manngert far rannsakar dvergreikistjörnu en skammt er að bíða þess næsta. Geimfarið New Horizons nálgast nú Plútó og á að fljúga fram hjá í sumar.

Ceres er stærsta fyrirbærið í smástirnabeltinu. Hann er skilgreindur sem dvergreikistjarna og er um 975 kílómetrar í þvermál. Massi Ceresar er talinn nema um þriðjungi heildarmassa smástirnabeltisins. Engu að síður er dvergreikistjarnan sannarlega dvergvaxin þegar hún er borin saman við tunglið okkar. Heildarmassi smástirnabeltisins er þannig aðeins talinn nema um 4% af massa tunglsins.

Frétt á vef NASA um komu Dawn til Ceresar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert