Hjúpaður lofti úr iðrum sínum

Mynd Cassini af Títan árið 2005. Yfirborð tunglsins sést ekki …
Mynd Cassini af Títan árið 2005. Yfirborð tunglsins sést ekki fyrir þykkum lofthjúpnum. NASA

Nú tíu árum eftir að könnunarfarið Huygens sveif niður í gegnum lofthjúp Títans, tungls Satúrnusar, eru vísindamenn enn að vinna úr gögnum til að gera sér betri hugmynd um hvernig hann myndaðist. Talið er líklegt að gastegundirnar í honum hafi orðið til fyrir tilstilli jarðhita í iðrum Títans.

Títan er langstærsta tungl Satúrnusar og það næststærsta í sólkerfinu á eftir Ganýmedesi, tungli Júpíters. Sérstaða Títans felst þó fyrst og fremst í þykkum lofthjúpinum en ekkert annað tungl í sólkerfinu getur státað af. Á yfirborðinu er einnig að finna stór stöðuvötn úr fljótandi metani og íseldfjöll.

Ein kenning um uppruna lofthjúpsins er sú að Títan hafi náð að næla sér í köfnunarefni, metan og eðallofttegundir þegar sólkerfið var að myndast. Önnur kenning gengur út á að efniviður lofthjúpsins hafi orðið til í iðrum tunglsins vegna jarðhita. Fjallað er um málið á vefsíðunni Space.com.

Christopher Glein við Háskólann í Toronto hefur unnið upp úr þeim gögnum sem Huygens sendi til jarðar og hefur ritað grein þar sem hann færir rök fyrir síðarnefndu kenningunni. Könnunarfarið fann argonsamsætur í lofthjúpnum en það er eðallofttegund sem einnig má finna í lofthjúpi jarðar. Argon-40 er geislavirk afurð þess þegar kalín-40 brotnar niður. Glein segir að það hafi myndast inni í Títan og síðan borist upp á yfirborðið, annað hvort í gegnum sprungur eða í gosum úr íseldfjöllum.

Metan og köfnunarefni hafi svo getað orðið til með efnahvörfum úr koltvísýringi og ammóníaki fyrir tilstuðlan jarðhitans inni í tunglinu.

Þyrftu að senda jeppa til tunglanna

Til þess að það geti gerst hefðu innviðir Títans þurft að vera lagskiptir eins og jarðarinnar. Tunglið gæti þá hafa haft heitan bergkjarna umkringdan hafi með ísskorpu ofan á. Ef sú var reyndin þá vekur það spurningar um hvers vegna Ganýmedes og Kallistó, annað tungl Júpíters, sem talin eru hafa verið sama eðlis hafi ekki myndað lofthjúp.

Útreikningar Glein sem miða við þær forsendur að jarðhita hafi verið að finna á Títan og eðallofttegundir hafi komið frá bergkjarnanum virðast hins vegar koma heim og saman við það sem menn sjá í dag. Vandamálið er hins vegar að gögnin sem Glein byggir útreikninga sína á koma úr þessum eina leiðangri sem stóð aðeins yfir í nokkrar klukkustundir. Frekari rannsókna er þörf til að hægt sé að varpa frekara ljósi á uppruna lofthjúpsins.

„Ég held að á endanum þurfum við annan leiðangur til Títans, til dæmis könnunarjeppa, og ég held líklega til Júpíterskerfisins í nánari framtíð. Það er ganglegar upplýsingar þarna úti,“ segir Glein.

Jarðvirkni í íshnöttum eins og Evrópu, Ganýmedes, Kallistó, og mögulega Títan, er mál sem brennur á vísindamönnum en ef jarðhiti gerir það mögulegt að fljótandi vatn sé að finna á þeim er einnig mögulegt að líf hafi getað kviknað þar.

Frétt á vef Space.com um rannsóknir á lofthjúp Títans

Fyrsta myndin sem Huygens tók af yfirborði Títans. Litlu klumparnir …
Fyrsta myndin sem Huygens tók af yfirborði Títans. Litlu klumparnir eru úr ís. ESA/NASA/JPL/University of Arizona
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert