Hafísinn í sögulegu lágmarki

Hafís við Grænland. Mynd úr safni.
Hafís við Grænland. Mynd úr safni. Rax / Ragnar Axelsson

Allt stefnir í að hámarksútbreiðsla hafíssins í Norðuríshafi verði sú minnsta í vetur frá því að gervihnattamælingar á henni hófust árið 1979. Óvíst er hvaða áhrif það hefur á lágmarksútbreiðsluna í sumar.

Nú þegar byrjað er að vora sums staðar á norðurhveli er útbreiðsla hafíssins í Norður-Íshafinu í hámarki eftir veturinn. Í september nær er útbreiðslan hins vegar í lágmarki eftir sumarið áður en ís byrjar aftur að myndast.

Nú lítur út fyrir að hámarksútbreiðsla íssins í vetur hafi verið um 14,6 milljónir ferkílómetra. Það er það minnsta sem sést hefur frá því að menn byrjuðu að mæla ísþekjuna með gervihnöttum.

Vegna hnattrænnar hlýnunar hefur meðalútbreiðsla hafíssins dregist saman um 4,52% á áratug en lágmarksútbreiðslan hefur dregist saman um 13,7% á áratug. Erfitt er að segja til um hvaða áhrif staðan nú hefur á lágmarksútbreiðsluna í sumar þar sem athuganir hafa sýnt að ekki er alltaf beint samhengi á milli hámarks- og lágmarksútbreiðslunnar. Engu að síður þýðir þetta að góðar líkur eru á að lágmarksútbreiðslan verði nærri því minnsta sem menn hafa þekkt.

„Vetrarhámarkið hefur tilhneigingu til að hafa lítil áhrif á sumarlágmarkið eins og við höfum séð á fyrri lágmarksmetárum,“ segir Julienne Stroeve, snjó- og ísupplýsingamiðstöðinni í Boulder í Koloradó í Bandaríkjunum.

Ef útbreiðsla hafíssins eykst hins vegar ekki og heldur áfram að gefa eftir eða stendur í stað myndi það benda til þess að vetrarhámarkið hafi toppað fyrr en venjulega.

„Það eru líka slæmar fréttir vegna þess að það þýðir að bráðnunartímabilið verður lengra sem gefur ísnum meira tækifæri til þess að bráðna,“ segir Jennifer Francis frá Rutgers-háskóla.

Frétt Scientific American af útbreiðslu hafíssins

Veðurstofan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert