Apple í samkeppni við Netflix

Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. AFP

Tæknirisinn Apple er sagður í óða önn að undirbúa afþreyingarþjónustu sem mun gera notendum kleift að streyma efni frá 25 sjónvarpsstöðvum í iPhone símtækjum, iPödum og Apple TV.

Apple á í viðræðum við ABC, CBS og Fox vegna þjónustunnar en hugmyndin er að bjóða upp á fáar, en vinsælar sjónvarpsstöðvar á borð við CBS, ESPN og FX. Þjónustan verður að öllum líkindum aðgengileg notendum í gegnum áskriftarkerfi og mun þjónustan kosta á milli 30 og 40 dali á mánuði. Búist er við að Apple kynni þjónustuna í júní og að hún verði aðgengileg notendum i september, samkvæmt heimildum The Telegraph.

Breytt umhverfi í afþreyingarbransanum

Á undanförnum misserum hefur umhverfið breyst mikið, hvað afþreyingarþjónustu varðar. Hefur fjöldi notenda fært sig frá því að greiða fyrir áskrift að gervihnattarásum yfir í það að greiða fyrir afþreyingarþjónustu á netinu, m.a. Netflix og Amazon Prime Instant Video.  

Þá tilkynnti YouTube um það í gær að fyrirtækið hygðist bjóða upp á áskriftarþjónustu á næstunni þar sem notendur þjónustunnar geti horft á ótakmarkað magn myndbanda án auglýsinga gegn vægu gjaldi á mánuði. 

Í síðustu viku gaf Apple út að fyrirtækið hefði tryggt rétt að HBO Now en það gerir notendum Apple kleift að horfa á vinsælar sjónvarpsþáttaseríur á borð við Game of Thrones. Ekki er vitað hvort Apple hyggist bjóða upp á þjónustuna utan Bandaríkjanna en þá þyrfti fyrirtækið að ná samkomulagi við eigendur höfundarréttar í viðkomandi löndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert