Brjóstagjöf hefur áhrif á greind

mbl.is/Brynjar Gauti

Brjóstagjöf virðist hafa jákvæð áhrif á greindarvísitölu fólks ef marka má nýja rannsókn sem gerð var í Brasilíu.

Rannsóknin náði til tæplega 3.500 barna á öllum aldri. Þau börn sem höfðu verið á brjósti í langan tíma reyndust vera með hærri greindarvísitölu er þau voru látin taka greindarvísitölupróf á fullorðinsárum.

Í frétt BBC er haft eftir sérfræðingum að þessi niðurstaða sýni enn frekar fram á það sem hafi verið haldið fram, að börn eigi að vera á brjósti að minnsta kosti fyrstu sex mánuði ævinnar. Það eigi hins vegar að vera val móðurinnar hvort svo sé eða ekki.

Niðurstaða rannsóknarinnar er birt í Lancet Global Health tímaritinu. Þar kemur fram að ljóst sé að margt annað geti haft áhrif þegar kemur að greind þó svo reynt hafi verið að taka tillit hluta eins og menntun móður, tekjur fjölskyldunnar og fæðingarþyngd.

Í ljós hafi komið að flest öll börn voru á brjósti í einhvern tíma en mjög mislangan. Þau sem voru lengst á brjósti, eða í allt að eitt ár, fengu fleiri stig á greindarvísitöluprófum og voru líklegri til þess að fá hærri laun og meiri menntun en þau sem voru skemur á brjósti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert