Verða í geimnum í heilt ár

Bandaríski geimfarinn Scott Kelly (l.t.v.) ásamt rússneskum starfsbræðum sínum, þeim …
Bandaríski geimfarinn Scott Kelly (l.t.v.) ásamt rússneskum starfsbræðum sínum, þeim Gennadí Padalka og Mikhaíl Korníenkó. AFP

Geimfararnir Scott Kelly, sem er bandarískur, og Mikhaíl Korníenkó, sem er frá Rússlandi, munu innan fárra klukkustunda halda út í geim þar sem þeir ætla að dvelja í alþjóðlegu geimstöðinni í heilt ár. Þetta markar tímamót því enginn hefur dvalið svo lengi í stöðinni, sem er í um 400 km hæð yfir jörðu.

Vísindamenn vona að leiðangurinn muni veita þeim betri upplýsingar um hvaða áhrif þyngdarleysi hefur á mannslíkamann í þetta langan tíma.

Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins.

Geimferðastofnarnir Bandaríkjanna og Rússlands segja að um ómetanlegar upplýsingar sé að ræða, en verkefnið tengist undribúningi að mönnuðum geimferðum til Mars -  sem menn binda vonir við að verði í framtíðinni hægt að leggja í. 

Kelly og Korníenkó munu leggja af stað í rússneskri Soyuz-eldflaug frá Baikonur í Kasakstan kl. 19:42 í kvöld að íslenskum tíma, eða kl. 01:42 í nótt að staðartíma. 

Rússneski geimfarinn Gennadí Padalka flýgur með þeim, en hann mun hins vegar aðeins vera hálft ár í stöðinni. 

Talið er að geimfarið muni tengjast geimstöðinni um sex tímum eftir flugtak. 

Þrátt fyrir að þeir Kelly og Korníenkó muni setja met í alþjóðlegu geimstöðinni, þá hafa geimfarar dvalið lengur í rússnesku Mír-geimstöðinni. Geimfarinn Valerí Pojakov dvaldi um borð í stöðinni í hvorki fleiri né færri en 437,7 daga á milli áranna 1994 og 1995.

Korníenkó bendir hins vegar á að mikil þróun og framfarir í tækni og vísindum hafi átt sér stað sl. tvo áratugi. „Nú ætlum við að láta reyna á það hvernig maðurinn getur starfað í svo löngum ferðum. Þannig að það er okkar helsta markmið - að láta reyna á okkur.“

Kelly og félagar hans ræddu við blaðamenn um leiðangurinn í …
Kelly og félagar hans ræddu við blaðamenn um leiðangurinn í gær. AFP
Korníenkó er klár í slaginn.
Korníenkó er klár í slaginn. AFP
Padalka er þriðji geimfarinn, en hann verður hálft ár í …
Padalka er þriðji geimfarinn, en hann verður hálft ár í geimstöðinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert