Breyta ljósbletti í reikistjörnu

Fyrsta litmyndin sem menn hafa náð af Plútó og fylgitunglinu …
Fyrsta litmyndin sem menn hafa náð af Plútó og fylgitunglinu Karoni er óskýr en það mun breytast þegar New Horizons flýgur fram hjá dvergreikistjörnunni um miðjan júlí. AFP

Ólíkt hinum sauðtrygga hundi Mikka músar virðist dvergreikistjarnan Plútó rauðleit á fyrstu litmyndinni sem náðst hefur af henni. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA birti myndina sem geimfarið New Horizons tók en á henni sést einnig Karon, stærsta tungl Plútó.

Bestu myndir sem menn hafa haft af Plútó, sem áður taldist ysta reikistjarnan í sólkerfi okkar en er nú talin vera dvergreikistjarna, voru teknar með Hubble-geimsjónaukanum. Plútó birtist hins vegar sem lítið meira en ljósklessa á þeim myndum sem ómögulegt er að greina nokkuð á vísindalegan hátt.

Myndin sem New Horizons tók af Plútó og Karoni sem tekin var úr um 115 milljón kílómetra fjarlægð, um það bil vegalengdin á milli sólarinnar og Venusar, er vissulega óskýr en á henni er hægt að greina tvo rauðleita heima.

Það mun breytast á næstu mánuðum en New Horizons nálgast nú Plútó óðfluga. Næst fer geimfarið dvergreikistjörnunni 14. júlí en þegar í næsta mánuði man það byrja að senda senda litmyndir heim til jarðar sem koma til með trompa allt sem menn hafa áður séð til þessa lítt þekkta hnattar sólkerfis okkar og fylgihnatta hans. 

Ekkert í líkingu við þetta hefur verið gert í aldarfjórðung

New Horizons er nú í um fimm milljarða kílómetra fjarlægð frá jörðinni og tekur það útvarpsmerkið frá geimfarinu á fimmtu klukkustund að berast til jarðarinnar þrátt fyrir að það ferðist á ljóshraða.

Eins og gefur að skilja eru vísindamenn spenntir fyrir næstu mánuðum en þetta verður í fyrsta skipti sem hulunni verður svipt af nýjum heimi með þessum hætti frá því að Voyager 2 flaug fram hjá Neptúnusi á 9. áratug síðustu aldar.

„Geimfarið er við hestaheilsu, það er fullt af eldsneyti og það er með sjö mælitæki í vísindavopnabúri sínu sem eru samanlagt þau öflugustu sem notuð hafa verið í fyrstu könnunarferð til nýrrar reikistjörnu. Ekkert þessu líkt hefur verið gert í aldarfjórðung og ekkert í líkingu við þetta er á dagskránni hjá neinni geimferðastofnun. Þetta er raunverulega stundin þar sem þú getur horft á okkur breyta ljósbletti í reikistjörnu,“ segir Alan Stern, yfirvísindamaður við New Horizons-leiðangurinn.

Teikning af New Horzions-geimfarinu sem stefnur nú hraðbyri á Plútó.
Teikning af New Horzions-geimfarinu sem stefnur nú hraðbyri á Plútó. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert