Segulsvið stuðlar að svartholsflótta

Stærstur hluti efnis sem safnast í kringum risasvarthol í miðju vetrarbrauta á sér engrar undankomu auðið frá myrkum faðmi þess. Hluti þess sleppur hins vegar á nærri því ljóshraða í rafgasstróki frá pólum svartholsins en talið er að sterkt segulsvið valdi því. Stjörnufræðingar í Svíþjóð hafa nú svipt hulunni af sterkasta segulsviði sem mælst hefur í miðju nokkurrar vetrarbrautar.

Risasvarthol, oft meira en þúsund milljón sinnum massameiri en sólin, er að finna í miðju næstum allra vetrarbrauta í alheiminum. Slík svarthol geta sankað að sér miklu efni sem myndar aðsópskringlur eða -skífur í kringum þau. Stærstur hluti efnisins fellur inn í svartholið en hluti þess getur líka sloppið rétt áður en það fellur inn og þýtur þá út í geiminn á nærri ljóshraða í rafgasstróki út frá pólum svartholsins. Skilning skortir á því hvernig þetta gerist en talið er að sterkt segulsvið mjög nálægt sjóndeildinni leiki lykilhlutverk í ferlinu og hjálpi efninu að losna úr gapandi gini myrkursins, að því er segir í frétt á vef evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli ESO.

Rannsökuð skautun ljóss sem barst frá svartholinu

Stjörnufræðingar við Chalmers-háskóla og Onsala-geimathugunarstöðina í Svíþjóð notuðu ALMA-sjónauka ESO til að mæla sterkt segulsvið mjög nálægt sjóndeild risasvarthols í vetrarbrautinni PKS 1830-211. Segulsviðið er nákvæmlega á þeim stað þar sem efni er að þjóta burt í strók á ofsahraða frá svartholinu. Fram að því höfðu stjörnufræðingar aðeins náð að rannsaka veik segulsvið í nokkurra ljósára fjarlægð frá þeim. 

Þeir mældu styrk segulsviðsins með því að rannsaka skautun ljóssins þegar það barst frá svartholinu.

„Skautun er mjög mikilvægur eiginleiki ljóss og mikið notaður í daglegu lífi, til dæmis í sólgleraugum eða þrívíddargleraugum í kvikmyndahúsum,“ segir Ivan Marti-Vidal aðalhöfundur greinarinnar um rannsóknina sem birtist í tímaritinu Science á morgun.

„Þegar náttúruleg skautun verður til er hægt að mæla segulsvið, þar sem skautun ljóssins breytist þegar það ferðast um segulmagnað efni. Í þessu tilviki mældum við ljós með ALMA sem hafði ferðast í gegnum efni mjög nálægt svartholinu, frá stað sem er uppfullur af mjög segulmögnuðu rafgasi.“

Mælingarnar hjálpa stjörnufræðingum að skilja uppbyggingu og myndun risasvarthola í miðjum vetrarbrauta og háhraðarafgasstróka sem þau varpa gjarnan frá pólsvæðum sínum.

Frétt á vef ESO um rannsóknina á segulsviði risasvarthols

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert